Í kvöld tók Þór Þorlákshöfn á móti Njarðvík í 20. umferð Domino´s deildar karla. Njarðvíkingar léku án Hauks Helga Pálssonar og í lið Þórs vantaði Þorstein Má Ragnarsson en báðir leikmenn eru að stríða við meiðsli.
Fyrsti leikhluti var nokkuð jafn og leiddu Þórsarar 21-20 að honum loknum.
Þórsarar voru áfram með forystu þangað til að rúmlega 3 mínútur lifðu til hálfleiks en þá settu Njarðvíkingar þrjár 3ja stiga körfur í röð gegn engri körfu Þórsara og komu stöðunni í 39-34. Þórsarar náðu þó að minnka forskotið niður í 1 stig, 44-43, áður en flautað var til hálfleiks.
Síðari hálfleikur var mjög jafn allann tímann en Njarðvíkingar leiddu þó meira. Þegar 2 mínútur voru til leiksloka var leikurinn jafn 76-76, þá setur Vance Hall risa þrist fyrir Þórsarar og kemur þeim í 79-76, næst komu nokkrar misheppnaðar sóknir hjá báðum liðum og þegar 3 sekúndur voru eftir á klukkunni brutu Þórsarar á Oddi Rúnari Kristjánssyni. Dómarar leiksins mátu það svo að Oddur hafi verið í 3ja stiga skoti þannig að hann hlaut þrjú vítaskot. Fyrsta skotið geigaði, það annað fór ofan í og það þriðja var dæmt ólöglegt og Þórsurum dæmdur boltinn.
Njarðvíkingar brutu strax á Ragnari Erni Bragasyni og var honum dæmd tvö vítaskot. Hann setti það seinna niður og kom Þórsurum í 80-77 með 2.4 sekúndur á klukkunni. Jeremy Martez Atkinson reyndi síðan 3ja stiga skot en það vildi ekki ofan í og leiktíminn rann út, 80-77 Þórsarara sigur því staðreynd.
Leikurinn var mjög jafn og hefði getað dottið báðum megin. Svolítið var um klaufalega tapaða bolta hjá Þórsurum en þeir töðuðu 21 bolta á móti 11 töpuðum boltum Njarðvíkinga.
Ragnar Örn Bragason átti flottann leik fyrir Þór með 22 stig, Vance Hall átti góðann seinni hálfleik eftir að hafa verið rólegur í þeim fyrri, hann endaði leikinn með 23 stig, 10 fráköst og 7 stoðsendingar, einnig átti Grétar Ingi Erlendsson prýðis leik með 14 stig og 14 fráköst.
Hjá Njarðvík átti Jeremy Martez Atkinson fínann leik með 23 stig og 7 fráköst sem og Hjörtur Hrafn Einarsson sem var með 16 stig og 16 fráköst. Með sigrinum eru Þórsarar í 5.sæti deildarinnar með 24 stig en Njarðvíkingar í 7. sæti með 22 stig.
Ragnar Ágúst Nathanaelsson leikmaður Þórs hafði þetta um leikinn að segja.
"Mér fannst þetta nú ekkert sérstakur leikur hjá okkur, við sýndum karakter og vorum harðari en þeir í lokin fannst mér. Það sást alveg að við þurfum að bæta bæði sókn og vörn hjá okkur við erum búnir að vera á niðurleið og við þurfum bara að vinna það aftur upp núna en við sýndum allavega karakter í kvöld".
Teitur Örlygsson aðstoðarþjálfari Njarðvíkur hafði þetta um leikinn að segja.
"Þetta var hörkuleikur út í gegn, hörku varnarleikur hjá báðum liðum og hefði svo sem getað lent okkar megin. vance hitti þarna 2 þristum á rándýrum tíma og kemur þeim yfir í leiknum þegar við vorum að stjórna honum. Við vorum óheppnir í leiknum, Logi meiddist á hönd í leiknum og gat ekkert skotið eftir það, hann spilaði frábærann varnarleik á Vance og við söknum náttúrulega Hauks. Það var eins og í síðasta leik, við vorum inn í leiknum allann tímann og með smá heppni hefðum við getað unnið báða þessa leiki. En þetta var ágætis frammistaða og liðið missir ekkert sjálfstraust og hræðist ekki neitt komandi inn í úrslitakeppnina alveg sama hvaða sæti liðið lendir í, þá bara fáum við þessa menn sterka inn í úrslitakeppnina og horfum bara bjartir fram á veginn".
Tölfræði leiksins
Mynd/ umfjöllun og viðtöl/ Vilhjálmur Atli Björnsson



