Penas Huesca hafði í dag 76-87 útisigur á Breogan í LEB Gold deildinni á Spáni. LEB Gold er næstefsta deildin á Spáni en Ægir Þór Steinarsson kom inn af bekknum, gerði 4 stig og gaf 6 stoðsendingar á 17 mínútum í sínum fyrsta leik með Huesca. Huesca og Breogan eru Íslendingalið ef svo má að orði komast en Haukur Helgi Pálsson uppeldisbróðir Ægis í Fjölni varði heilli leiktíð í herbúðum Breogan.
Ægir gerði tvær körfur í teignum og reyndi tvö þriggja stiga skot sem vildu ekki niður. Stigahæstur í liði Huesca var Christian Diaz Rodriguez með 22 stig.
Með sigrinum komst Huesca upp í 3. sæti deildarinnar en Palencia situr á toppnum með 44 stig, Melilla í 2. sæti með 30 stig og Huesca í 3. sæti með 38 stig ásamt Union Financial BTO. OViedo.
Næsti deildarleikur Huesca fer fram á heimavelli þegar Palma kemur í heimsókn þann 11. mars en Palma er í 11. sæti deildarinnar.
Mynd úr safni/ Ægir Þór í leik með Íslandi á EuroBasket í Berlín.



