Haukar luku keppni í 4. sæti deildarkeppninnar í Domino´s-deild karla í kvöld. Með sigrinum í kvöld hafa Haukar unnið átta deildarleiki í röð og ljúka deildarkeppninni með 15 sigra og 7 tapleiki og þar með náðu Hafnfirðingar að jafna sinn næstbesta árangur í deildarkeppni með 12 liðum þar sem leikin er tvöföld umferð en það fyrirkomulag hófst tímabilið 1996-1997.
Fyrsta árið í núverandi fyrirkomulagi luku Haukar deildarkeppninni 15-7 eins og í kvöld. Ekki ósvipað tímabil fylgdi árið eftir með 14-8 en tímabilið 1999-2000 unnu Haukar 17 deildarleik og töpuðu 5 sem er þeirra besti árangur í núverandi fyrirkomulagi en þá var Ívar einmitt líka að þjálfa Haukaliðið.
Tímabilið 2002-2003 kom svo önnur 15-7 deildarkeppni hjá Haukum rétt eins og í ár. Hvort markmið Hauka um þann stóra gangi svo eftir verður að koma í ljós en Hafnfirðingar fá heimavöll í fyrstu umferð úrslitakeppninnar þar sem þeir mæta silfurliði bikarkeppninnar, Þór Þorlákshöfn.
Mynd/ Ívar Ásgrímsson þjálfari Hauka getur brosað þessa stundina enda Haukarnir hans heitasta lið landsins um þessar mundir.



