Snæfell sá leiktíð sína fá enda þetta tímabilið eftir 88-82 ósigur gegn Þór Þorlákshöfn. Fyrir kvöldið ríkti mikil spenna um hvort Snæfell eða Grindavík myndu hreppa áttunda og síðasta sætið í úrslitakeppninni og þegar lokaflautið gall var það Grindavík sem stóð uppi með farseðilinn í úrslitakeppnina. Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells sagðist engu að síður ganga mjög stoltur frá þessari leiktíð með karlaliðið.
„Rod var á öðrum fæti í kvöld en hann hefur vart getað stigið í annan fótinn þrátt fyrir að ákveðnir menn hafi jafnvel efast um að hann hafi verið meiddur. Hann gerði allt til að koma liðinu okkar í úrslitakeppnina en það var farið að draga af honum og öðrum í lok leiks og þá komu mistökin,“ sagði Ingi Þór í samtali við Karfan.is í kvöld.
„Ég tel að við höfum komið Þórsurum á óvart með frammistöðunni okkar varnarlega í kvöld. Ég er stoltur af því hvernig menn hafa brugðist við eftir leikinn gegn ÍR og strákarnir hafa sýnt að það er helling í þá varið svo ég geng stoltur frá þessu tímabili með þetta lið.“
Oft og tíðum var hópur Hólmara þunnskipaður og hlutu þeir jafnvel gagnrýni fyrir. Ingi sagði það vissulega ekki ákjósanlegt fyrir klúbba sem vilja standa sig vel í úrvalsdeild.
„Óli Ragnar dettur út og við söknum hans og svo líka Stefáns Karels í síðustu tveimur leikjum. Við misstum einnig leikmenn vegna anna í vinnu og Óli Torfa kom lítillega við sögu vegna vaktavinnu. Þessi vetur var skrýtinn og ekki eins og maður kýs að hafa þetta en ungir menn hafa fengið tækifæri og kjarninn á tímabilinu hélst sá sami og því geng ég stoltur með liðið frá tímabilinu sem oft bauð upp á miklar áskoranir.“
Snæfell barðist um sæti í úrslitakeppninni en fyrir tímabilið var þeim spáð falli. Ingi segir það hafa verið upprunalegt markmið liðsins að halda sæti sínu í deildinni.
„Við náðum því markmiði eftir sigurinn á FSu svo næsta markmið eftir það var að ná inn í úrslitakeppnina. Við náðum að svara leiknum gegn ÍR með síðustu frammistöðum og sýndum gegn liðum sem eru að fara að gera gott mót í úrslitakeppninni að það er nokkuð í okkur varið. Án tveggja byrjunarliðsmanna erum við að mæta vel gegn liðum þar sem mun meira er lagt í hópinn en hjá okkur svo ég er stoltur af öllum sem komu að liðinu í vetur. Það eru t.d. forréttindi að vera með 49 ára gamlan jaxl í hópnum sem fórnar sér í allt með okkur en að sama skapi hundfúll að komast ekki í úrslitakeppnina, við ætluðum að slá út KR þar sem ægir var farinn,“ sagði Ingi Þór hvergi banginn en veðrur þó að fella sig við að horfa á úrslitakeppnina í Domino´s-deild karla úr stúkunni eða í sófanum heima.



