spot_img
HomeFréttirHöttur lítil fyrirstaða fyrir fljúgandi Hauka

Höttur lítil fyrirstaða fyrir fljúgandi Hauka

Haukar mættu Hattarmönnum í lokaumferð Domino‘s deildarinnar í kvöld, í leik sem skipti engu máli fyrir liðin upp á niðurröðun í deildinni. Höttur var fallið fyrir leikinn og Haukar fastir í fjórða sæti. Allt frá uppkasti til enda var eins og liðin biðu bara eftir að leikurinn kláraðist og var stemningin samkvæmt því, hvort sem var á vellinum eða í stúkunni.

Höttur hafði tækifæri til að sýna einn alvöru leik að lokum og halda uppi heiðri sínum en það tækifæri fengu þeir aldrei. Þó svo að Haukar hafi verið í öðrum gír nánast lungann úr leiknum voru þeir alltaf sterkari aðilinn og var sigur þeirra í raun aldrei í hættu.

Mirko Stefán Virijevic opnaði leikinn með tveimur stigum fyrir Hött en næstu níu voru Hauka. Þar var í raun botninn sleginn úr tunnunni. Haukar leiddu eftir fyrsta leikhluta með 15 stigum, 28-13, og með 14 í hálfleik, 40-26.

Hafnfirðingar voru í smá basli í byrjun þriðja leikhluta en það náðu Hattarmenn ekki að nýta sér þó svo að þeir gerðu harða atlögu að því að minnka muninn. Þeir náðu þessu niður í níu stig en þá skiptu Haukar um gír, með Brandon Mobley fremstan meðal jafningja, og kláruðu leikinn endanlega.

Munurinn var orðinn 17 stig fyrir lokaleikhlutann, 61-44, og mestur varð hann 26 stig í fjórða leikhluta og endaði í 21 stigi 87-66.

Brandon Mobley átti fínan dag og kláraði með 28 stig og 16 fráköst. Kári Jónsson var samkvæmur sjálfum sér með 18 stig og 7 fráköst og gamla brýnið Kristinn Jónasson var með 11 stig og 5 fráköst.

Hjá Hetti var Tobin Carberry með 29 stig en hann var drjúgur fyrir Hattarmenn í seinni hálfleik en hann var jafnframt með 11 fráköst. Hreinn Birgisson var með 11 stig og 5 fráköst og Mirko Virijevic var með 8 stig og 11 fráköst.

Myndasafn – Axel Finnur Gylfason

Tölfræði leiksins

Fréttir
- Auglýsing -