ÍA tók í kvöld á móti Ármenningum í þýðingarmiklum leik fyrir bæði lið. Heimamenn voru fyrir leikinn í 5. sæti og vantaði einn sigur til að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni á meðan gestirnir sátu í 9 sæti og í harðri baráttu um að halda sæti sínu í deildinni. Ármann vann fyrri leik þessara liða og því ljós að ekkert væri gefið í þessu þrátt fyrir mismunandi stöðu liðanna í deildinni.
Ármenningar skoruðu fyrstu körfu leiksins en ÍA náði svo forystunni og leiddi með 5 stigum. Þá tóku Ármenningar sig á og skoruðu 6 stig í röð, komust yfir og leiddu með einu stigi að loknum fyrsta leikhluta. Leikmenn ÍA mættu svo einbeittir til leiks í öðrum leikhluta og þegar um 3 mínútur voru til hálfleiks var kominn 15 stiga mundur heimamönnum í vil. Gestirnir réttu aðeins úr kútnum og þegar hálfleiksflautan gall var munurinn 9 stig, 40-31 fyrir ÍA.
Í hálfleik tóku skagamenn upp æa því að kalla alla þá leikmenn minniboltans sem voru í húsinu og kepptu um síðustu helgi á Nettómótinu fram á gólfið. Flestir í gulu og allir með ÍA fána félagsins. Krakkarnir gengu fram á miðjan völlinn og veifuðu upp í stúku undir dynjandi lófataki áhorfenda í húsinu.
Síðari hálfleikur fór af stað svipað og fyrrihálfleikur byrjaði, jafnræði með liðunum sem nánast skiptust á að skora. Þegar þriðji fjórðungur var rúmlega hálfnaður settu Ármenningar tvo þrista í röð og allt í einu var þetta aftur orðinn leikur, 7 stiga munur og vindur í segl gestanna. Heimamenn tóku þá aðeins fastar á árum sínum og náðu að halda sjó og leiddu 56-49 fyrir loka leikhlutann.
Til að gera langa sögu stutta þá var fjórði og síðasti leikhlut algjörlega eign ÍA. Mestur varð munurinn 24 stig 79-55 þegar um þrjár og hálf mínúta var til leiksloka og þegar lokaflautan gall hafði ÍA skorað 84 stig á meðan Ármenningar höfðu skorað 64. ÍA eru því öruggir í úrslitakeppnina á meðan Ármenningar fá einn séns enn til að halda sæti sínu í deildinni.
Það verður að viðurkennast að oft hafa sést fleiri 3ja stiga körfur í býflugnabúinu á Vesturgötunni. Það verður þó ekki tekið af liðunum að þau svo sem reyndu, sérstaklega Ármenningar en alls voru reynd 54 skot fyrir utan 3ja stiga línuna og fóru heil 9 af þeim ofan í körfuna. Nýting ÍA í þristum í kvöld var 24% á móti 14% nýtingu hjá Ármenningum.
Sean Tate var fyrirferðamestur í stigaskori hjá ÍA með 34 stig. Tvennubærðurnir Fannar og Jón Orri settu sína tvennuna hvort og Áskell henti 12 stigum á töfluna.
Hjá Ármenningum var Magnús Ingi með 16 stig, stigi meira en Guðni og Elvar Steinn setti 10 stig.
Tölfræði leiksins
Umfjöllun: HH
Mynd: Jónas H. Ottósson



