Sherrod Nigel Wright er á leið í segulómskoðun á næstu dögum en hann var allt að því járnabundinn á ökkla í kvöld skv. Inga Þór Steinþórssyni þjálfara Snæfells. Sherrod eða Rod eins og hann er jafnan kallaður missteig sig í leiknum gegn Stjörnunni.
„Ég hef ekki nokkurntíman teipað einn mann jafn fast og ég gerði í kvöld,“ sagði Ingi en hann er fyrir margt löngu orðinn frægur fyrir persónulega þjónustu við leikmenn sína á borð við að teipa og nudda. „Það gæti verið að eitthvað væri slitið en það voru Hansaplast og Parkódín Forte sem styrktu Rod til starfans í kvöld,“ sagði Ingi en það aftraði kappanum ekki frá því að gera 29 stig og taka 15 fráköst í leiknum sem Snæfell tapaði engu að síður.



