spot_img
HomeFréttirÞór kláraði Snæfell og mætir Haukum

Þór kláraði Snæfell og mætir Haukum

Síðasta umferð í deildarkeppni Dominos deildar karla fór fram í kvöld. Leikur Þórs og Snæfells skipti miklu máli fyrir gestina úr Hólminum en með sigri gátu þeir tryggt sér síðasta farmiðann í úrslitakeppnina og þar með lengt veturinn. Þórsarar gátu ekki farið ofar í töflunni en þurftu þó sigur til þess að halda 5 sætinu.

Leikurinn fór fjörlega af stað og heimamenn sterkari 12-5, en þá settu gestirnir í lás og skoruðu næstu 14 stig og þar með staðan orðin 12-19 og greinilegt að Snæfellingum langaði ekki í sumarfrí. Vel gekk í sóknarleiknum hjá Snæfell sem léku án Stefáns Karels en hann var en ekki búinn að ná sér eftir heilahristing sem hann fékk á dögunum.

Þórsarar glutruðu boltanum frá sér klaufalega hvað eftir annað og virtust vankaðir. Staðan 15-21 eftir fyrsta fjórðung. Snæfell hélt áfram að spila leikinn að hörku og gáfu þeir ekki tommu eftir í baráttunni og leiddu mest með 9 stigum 18-27.

Þá gáfu Þórsarar í. Tvær körfur frá Vance og Troðsla frá Ragga Nat komu Þórsurum aftur inn í leikinn. Ragnar Bragason setti svo þrist og skyndilega leiddu heimamenn 30-29. Sigurður Þorvaldsson svaraði þó með augabragði, en aftur settu heimamenn þrist 33-32. Liðin skiptust svo á körfum fram í leikhléð, en Snæfellingar enduðu betur og leiddu 41-44.

Stigahæstur hjá Þór var Vance með 10 stig. En fógetinn úr Hólminum var með 11 ásamt Sigurði. Snæfellingar héldu áfram að bíta fast frá sér, á meðan Þórsarar reyndu að klóra sig aftur inn í leikinn. Í þriðja leikhlutanum byrjaði heldur betur að rigna kröftulega en liðin skiptust á að skora fallegar körfur hvaðan af á vellinum. Þórsarar unnu leikhlutann með einu stigi og því ekki nema tveggja stiga munur á liðunum fyrir síðasta fjórðunginn 70-72.

Fjallið Baldur Þór opnaði síðasta leikhlutann með fjórum stigum í röð, en silkimjúkur Sigurður svaraði með þrist 74-75. Raggi Nat átti næstu 4 stig og Hall skoraði einnig á meðan annað af tveimur vítum Sherrod rataði niður , 80-76. Þegar 5 mín voru eftir minnkaði Viktor Marínó muninn 80-78. En Halldór og Vance svöruðu. 84-78. Þarna fóru gestirnir að keppa of mikið við tímann og reyndu oft og tíðum mjög erfið skot,  Sherrod Wright kom sér á línuna með tæpar tvær mínútur eftir og setti bæði 84-80. 

En það var Baldur Þór sem skilaði huggulegu sniðskoti niður hinu megin í sókninni á eftir og sex stiga munur á liðunum aftur. Snæfellingar skorðu þó og stálu boltanum með 50 sek eftir, en skot Fógetans fyrir utan línuna rataði ekki niður og kláraði Halldór Garðar leikinn á línunni 88-82. Þórsarar enda því tímabilið í 5 sæti deildarinar en þeirra bíða Haukar í úrslitakeppninni, hins vegar þurfa Snæfellingar að bíta í það súra epli að halda í sumarfrí þar sem að Grindavík unnu sinn leik og ná því 8.sætinu. 

Stigahæstur hjá heimamönnum var Vance Hall með 27 stig og 6 stoðsendingar, Halldór Garðar var með 14 stig og Ragnar Bragason 10. Raggi Nat skilaði 8 stigum og 22 fráköstum takk fyrir. 

Hjá gestunum var Sherrod Wright allt í öllu með 29 punkta og 15 fráköst, en Sigurður var með 23 stig og 6 fráköst og Austin Magnus Bracey með 15 stig og 7 fráköst.

Tölfræði leiksins

Umfjöllun/ ÍÖG
Mynd úr safni/ Vance Hall var stigahæstur hjá Þór í kvöld með 27 stig.

Fréttir
- Auglýsing -