Margir hafa tekið eftir því að Helgi Rafn, fyrirliði Tindastóls hefur í síðustu leikjum spilað í ósamstæðum skóm. Um er að ræða skó úr smiðju LeBron James, Nike Zoom Soldier IX, hægri svartur og vinstri rauður.
Fólk hefur verið að vellta því fyrir sér hvort Helgi sé að reyna að koma af stað nýrri tískubylgju. Þó svo að Helgi sé mikill smekkmaður og ávallt með puttana á púlsinum þá er hann ekki að koma af stað nýrri tískubylgju og eru börn á Sauðárkróki ekki byrjuð að ganga í ósamstæðum skóm skv. nýjustu úttekt Karfan.is.
Skýringin á þessu stóra skómáli er þó góð og gild. Helgi Rafn fjárfesti í tvennum pörum af skóm í haust, hann keypti þau þó ekki á sama tíma. Hann var ekki lengi að eyðileggja fyrsta parið, þar fór plastkrækja á vinstri skónum. Honum líkaði vel við þessa týpu frá LeBron og ákvað því að gefa þeim annan séns og fékk sér nýtt par.
Ekki leið á löngu þar til það par var líka ónýtt, sama plastkrækja og á hinu parinu nema nú á hægri skónum. Þar sem að ekki fengust skór í Kaupfélaginu á Króknum, já sem er ótrúlegt! Þá voru góð ráð dýr og vildi svo heppilega til að um var að ræða sitthvoran skóinn, þannig að það var aðeins um eitt að ræða í stöðunni og það var búa til eitt par úr sitthvorum skónum.
Síðan að þetta skómál hófst hefur Tindastóll verið á mikilli siglingu. Það er því spurning hvort að Helgi Rafn sem fékk nýja skó í gær afhenta á Selfossi þori að taka sénsinn á að spila í nýja parinu í úrslitakeppninni.
Mynd/ úr einkasafni – Helgi stendur frammi fyrir risavaxinni ákvörðun, í það minnsta fyrir þá sem eru hjátrúarfullir. Skartar hann samstæðum og nýjum skóm á næstunni eða heldur hann áfram á skriði með Stólunum í ósamstæðu pari?



