spot_img
HomeFréttirIngi tekur stefnuna á níu ár í Hólminum

Ingi tekur stefnuna á níu ár í Hólminum

Ingi Þór Steinþórsson er búinn að framlengja samningi sínum við Snæfell til næstu tveggja ára. Þessa leiktíðina klárar hann sjöunda árið sem „skipperinn“ í Hólminum og með nýja samningnum er stefnan sett á 9 ára feril undir félagsfána Snæfells.

Ingi verður áfram með bæði karla- og kvennalið félagsins en kvennaliðið er ríkjandi Íslandsmeistari síðustu tveggja tímabila og fagnaði sínum fyrsta bikartitli í sögu kvennaliðsins á yfirstandandi leiktíð.

„Það er búið að ganga vel hérna og maður hefur prófað nánast öll mynstur af liðum,“ sagði Ingi en hann viðurkenndi einnig að hafa heyrt frá fleiri félögum en Snæfell áður en hann framlengdi um tvö ár í Stykkishólmi.

„Það er gott að vinna með fólkinu í félaginu, bæði stjórninni og leikmönnum. Ákvörðunin var því auðveld enda umhverfið gott. Eins er mikið að gera en það er skilningur heimafyrir til að láta hlutina ganga upp, annars myndi þetta aldrei hafast,“ sagði Ingi en hann vonast til þess að halda aðstoðarþjálfurum sínum á báðum liðum félagsins.

„Karlamegin ætlum við að reyna að gera ennbetur í leikmannamálum en fyrir síðasta tímabil, það er metnaður í fólki hérna en við gerum okkur grein fyrir því að liðið þarf að bæta við sig leikmönnum til að geta gert betur. Við ætlum bara að sækja áfram veginn og strákarnir eru þegar farnir að undirbúa sig fyrir næsta tímabil. Þá er bara að fylgja eftir genginu með kvennaliðið og ná titlinum þar.“

Ingi Þór hefur setið við stjórnartaumana á gullárum Snæfells, tekst honum að lengja þann bókarkafla ennfrekar með hækkandi sól? Snæfellskonur eru hið minnsta á leið í úrslitakeppnina og hafa unnið þann stóra síðustu tvö tímabil undir stjórn Inga. 

Fréttir
- Auglýsing -