Breiðablik fékk Fjölni í heimsókn í Smárann í kvöld, en hlutskipti þessa liða eru ansi ólík, Fjölnir í baráttu um annað sætið í deildinni og heimaleikjarétt í úrslitakeppninni en Blikar búnir að missa af lestinni og sigla lygnan sjó.
Það var jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik, Breiðablik fór í svæðisvörn og Zachary Warren fór mikinn í sókninni og skoraði 22 stig í hálfleiknum á meðan Collin Pryor og Bergþór Ríkharðsson voru fyrirferðarmestir í stigaskorun hjá Fjölni með 15 og 13 stig. Staðan í hálfleik 48-51 Fjölni í vil.
Í þriðja leikhluta fóru Fjölnismenn einnig í svæðisvörn og virtust algerlega ná að loka á sóknarleik Blika, Zachary var í gjörgæslu og skoraði ekki stig í öllum seinni hálfleik og aðrir leikmenn liðsins náðu ekki að nýta sér það. Jafnt og þétt juku Fjölnismenn muninn, mestur var hann 25 stig í stöðunni 89-64 en Blikar náðu aðeins að klóra í bakkann í lokin og voru lokatölur 85-101.
Fjölnismenn spiluðu flottan leik í kvöld, spiluðu af miklum krafti og virðast klárir í úrslitakeppnina. Stigahæstir voru Garðar Sveinbjörnsson með 26 stig en hann er að eiga frábært tímabil í ár og klikkar varla á skoti í leiknum, Collin Pryor var með 20 stig og 10 fráköst, Bergþór Ægir Ríkharðsson skoraði 17 og Hreiðar Bjarki Vilhjálmsson 13.
Hjá Breiðablik var fátt um fína drætti í seinni hálfleik, en eftir ágætan fyrri hálfleik gekk ekkert upp í sókninni í þeim seinni og virtist sjálfstraustið hverfa á köflum. Ljósi punkturinn í liði Breiðabliks var Breki Gylfason sem átti sinn langbesta leik í nokkurn tíma, skoraði 20 stig og barði liðsfélaga sína áfram, en á þeim 32 mínútum sem hann spilaði voru Blikar 2 stigum yfir en á þessum 8 mínútum sem hann er á bekknum er liðið 18 stigum undir.
Fjölnir eiga svo Skallagrím í lokaumferðinni og Breiðablik fer á Hlíðarenda og mætir Val.



