„Staðan á okkur eins og ég sé hana er bara mjög góð, eins og allir sem fylgjast með boltanum vita þá höfum við gengið dimman og djúpan dal á tímabilinu en með hækkandi sól erum við komnir upp úr honum. Það er aftur komið þetta jafnvægi í liði og þessi ró sem einkenndi okkur,“ sagði Helgi Freyr Margeirsson leikmaður Tindastóls við Karfan.is. Helgi er lagður af stað með Stólunum suður til Keflavíkur þar sem liðin mætast í sínum fyrsta leik í 8-liða úrslitum Domino´s-deildar karla í kvöld.
„Þó leikurinn okkar sé í raun ekki rólegur þá vita menn sín hlutverk, þó þetta sé hratt eru menn að gera þetta af yfirvegun sem sýnir sig í þessum sjö sigurleikjum í röð og þar féllu m.a. deildarmeistararnir og Keflavík.“
Tindastóll vann báða deildarleikina gegn Keflavík á tímabilinu, Helgi segir fyrri leikinn hafa verið erfiðari. „Í fyrri leiknum var liðið ekki með þetta jafnvægi en við hittum á góðan leik og heimavöllurinn hjálaði okkur í gegnum það verkefni. Í síðari leiknum þá fann maður þessa ró þó Keflavík hafi nálgast okkur í lokin, við vorum aldrei að fara að missa þann leik frá okkur.“
Litið til Keflvíkinga, hvernig koma þeir Helga fyrir sjónir?
„Þeirra stærsti styrkur eru öflugir skotmenn, þeir spila að mörgu leyti öðruvísi bolta en önnur lið deildarinnar. Eru villtari og þó þeir spili villt þá hafa þeir góða vitneskju um það sem þeir eru að gera. Þeir leika svona bolta af ástæðu og því okkar hlutverk að koma þeim út úr því og inn í okkar aðstæður þar sem við stjórnum hraðanum. Við viljum alveg hlaupa en á móti kemur viljum við ekki að þeir skjóti mikið af þristum. Ef það væru bara tveggja stiga skot í þessum leik þá myndum við hafa yfirhöndina enda jafnvægið gott. Við erum með breitt lið og notum bekkinn okkar vel, Costa er öfundsverður að geta stillt upp nokkrum mismunandi liðum. Gott að vera með Svavar, Helga og Myron í teignum og geta svo jafnvel farið í small ball þar sem ég leysi fjarkann, ekki mörg lið sem geta gert þetta,“ sagði Helgi sem er ekki viss um hvernig framhaldið verður með Flake.
„Hann hefur ekkert spilað í um það bil mánuð og ég verð að viðurkenna að horfurnar eru ekkert allt of bjartar en það verður bara að koma í ljós.“
Stuðningsmenn Tindastóls hafa sannað sig allverulega síðustu misseri. Helgi býst við því að vinna stúkuna í Keflavík í kvöld.
„Við erum allir spenntir fyrir seríunni. Þá er forvitnilegt að sjá hvort við verðum með fleiri áhorfendur en Keflavík í kvöld, það var amk þannig á síðasta leik, nú ef það er ekki rétt þá heyrðist allavega meira í okkar fólki. Við erum stoltir af okkar baklandi og búumst við því að vinna stúkuna í kvöld og líka inni á parketinu.“



