„Auðvitað er það sterkast að klára þetta bara í næsta leik í Keflavík en við tökum einn leik í einu en ætlum okkur ekkert annað en sigur,“ sagði Helgi Rafn Viggósson í samtali við Karfan.is eftir sigur Tindastóls á Keflavík í 8-liða úrslitum Domino´s-deildar karla í kvöld.
„Það tók smá tíma að hrista þá af sér en Keflavík er náttúrulega með svakalega gott lið þannig að það má ekkert vanmeta þá. Keflvíkingar eru með flotta skorara eins og menn hafa séð í vetur svo við þurfum að vera klárir hvern leikhluta og í hverjum einasta leik til að leggja þá,“ sagði Helgi en fyrirliðinn var ánægður með stemmninguna á Króknum í kvöld.
„Þetta er ekki betra á neinum stað, það er staðið allan hringinn, allar stúkur úti og stemmningin hvergi betri. Við munum líka fá góðan stuðning í þriðja leiknum úti í Keflavík, þeir mæta sem búa fyrir sunnan og eins fólk hér að norðan sem fer suður til að sjá leikinn,“ sagði Helgi sem hjó ansi nærri þrennunni í kvöld en hann var ekki mikið að kippa sér upp við það.
„Ég skoða ekkert stattið, við unnum leikinn og þá er það bara búið,“ sagði Helgi aðspurður um hvort hann hefði ekki viljað að gefa af sér þrjár stoðsendingar í viðbót til að loka þrennunni. „Jú jú ég hefði sko alveg viljað það en maður er ekkert að spá í þessu, það er bara yngri kynslóðin,“ sagði Helgi léttur á manninn en hann var með 11 stig, 13 fráköst og 7 stoðsendingar hjá Stólunum í kvöld.
Helgi hefur vakið athygli í vetur fyrir að spila í ósamstæðum LeBron skóm. Í kvöld varð hann að brjóta fram nýtt hvítt par, eða einn skó, inn í leik sinn. „Helvítis smellan gaf sig og þeir eru enn svolítið sleipir svo ég fór tvisvar til þrisvar sinnum á hausinn í þeim, það þarf að húsvenja þetta par.“



