Erik Olson þjálfari FSu er á leið til Þýskalands með U18 ára landsliði Bandaríkjanna þar sem liðið tekur þátt í Albert Schweitzer mótinu sem haldið er annað hvert ár. Þetta er í annað sinn sem Olson er í aðstoðarþjálfarateymi U18 ára liðs Bandaríkjanna en hann var einnig á mótinu 2014 þegar Bandaríkjamenn töpuðu gegn Ítalíu í úrslitaleik mótsins.
Olson og Chris Leazier sem voru í 2014 teyminu mæta aftur til leiks en Leazier er fyrrum þjálfari Dartmouth College.
Mótið, Albert Schweitzer Tournament, er að öllu jöfnu kallað Mini-HM fyrir U18 ára lið en það fór fyrst fram árið 1958. Bandaríkjamenn hafa unnið mótið oftast allra eða alls 10 sinnum.
Erik Olson vinnur einnig með U20 ára landsliði Íslands og er þar aðstoðarþjálfari en verkefnið í Þýskalandi sem hefst þann 26. mars næstkomandi mun ekki skarast að neinu ráði við störf hans fyrir U20 ára landslið Íslands að sögn Eriks.
Mynd/ Olson ásamt U18 ára liði USA á mótinu 2014.



