spot_img
HomeFréttirNjarðvík endurtók leikinn í Ásgarði

Njarðvík endurtók leikinn í Ásgarði

Útisigrar eru málið í rimmu Stjörnunnar og Njarðvíkur, þrír slíkir staðreynd eftir niðurstöðu kvöldsins þar sem Njarðvíkingar fóru með 68-73 spennusigur úr Ásgarði. Njarðvík leiðir því einvígið 2-1 en Garðbæingar sóttu hart að gestum sínum í fjórða leikhluta en Njarðvík hélt velli. Oddur Rúnar Kristjánsson var stigahæstur Njarðvíkinga með 16 stig og 5 fráköst en Justin Shouse gerði 21 stig og gaf 5 stoðsendingar í liði Stjörnunnar. Rimmur þessara liða hafa allar þrjár verið æsispennandi en aðeins samtals 20 stig liggja á milli liðanna á 160 leikmínútum!

Það tók Garðbæinga næstum sex mínútur að fá dæmda á sig villu og Hauk Helga Pálsson að gera sín fyrstu stig í leiknum en það var þristur sem kom Njarðvíkingum í 9-16. Annar af færibandi Fjölnismanna fór þá að láta á sér kræla en Arnþór Freyr Guðmundsson kom snöggheitur af bekknum og fór að láta rigna. Njarðvíkingar leiddu samt 18-21 eftir fyrsta leikhluta þar sem Oddur Rúnar var beittur hjá grænum með 9 stig og Justin 7 í liði Garðbæinga. Fjörugur fyrsti leikhluti en stemmarinn breyttist í nokkuð hark framan af öðrum leikhluta. 

 

Þegar bráði af fangbrögðum liðanna í öðrum leikhluta var Arnþór enn heitur og smellti í þrjá þrista með skömmu millibili. Njarðvíkingar voru engu að síður við stýrið og fengu rándýrt tækifæri til þess að eiga fimm stiga sókn en klúðruðu því! Það eitt og sér útheimtir u.þ.b. þrjú línuhlaup. Maciek Baginski skellti í þrist en Marivn Valdimarsson braut líka á fyrrum liðsfélaga sínum Atkinson og með skotréttinn sér við hlið fengu Njarðvíkingar líka tvö víti, Atkinson setti bara annað þeirra og klúðraði fimm stiga sókninni sjaldgæfu en kom samt Njarðvíkingum í 35-48 og staðan síðan 36-48 í hálfleik þar sem Coleman fékk eitt víti á hinum endanum. 

 

Arnþór Freyr var með 12 stig hjá Stjörnunni í hálflei, 4-6 í þristum, en undir lok fyrri hálfleiks arkaði hann blóðugur af velli eftir að hafa fengið högg í andlitið. Oddur Rúnar var með 12 stig hjá Njarðvík í hálfleik og Haukur Helgi 11. 

 

Liðin hafa skorað meira og meira með hverjum leiknum, í fyrsta leik leiddi Njarðvík 37-31 í hálfleik og 38-32 í öðrum leiknum. Í kvöld var seríumetið sett þegar Njarðvíkingar leiddu 48-36 og hafa grænir því verið yfir í hálfleik í öllum þremur leikjunum til þessa. 

 

Stjörnumenn opnuðu síðari hálfleik 12-4 með sterkum varnarleik en Njarðvíkingar tóku aftur við sér og svöruðu með 2-11 spretti og staðan því 50-63 fyrir Njarðvík að loknum þriðija leikhluta. 

 

Með hverri mínútunni í fjórða leikhluta færðust Garðbæingar nærri, Njarðvíkingar gátu vart keypt sér körfu gegn þéttri vörn Stjörnunnar sem minnkaði muninn í 65-67 og komust svo yfir með þrist þar sem Marvin Valdirmarsson var að verki, 67-68 og gengu þá áhorfendur nánast af göflum í rafmagnaðri stemmningu. 

 

Ólafur Helgi og Atkinson buðu upp á huggulegt samspil á ögurstundu þar sem Ólafur fékk boltann við endalínu og kláraði tvö sterk stig og kom Njarðvíkingum í 68-71 þegar 20 sekúndur lifðu leiks. Stjörnumenn héldu yfir, brotið var á þeim og sett upp innkastkerfi sem lukkaðist ekki sem skyldi og þar með var björninn unninn, lokatölur eins og áður greinir 68-73. 

 

Fjórir liðsmenn Njarðvíkinga gerðu 11 stig eða meira í leiknum, Oddur Rúnar með 16 stig og 5 fráköst, Atkinson og Haukur Helgi báðir með 15 stig og Ólafur Helgi 11. Frákastavinna gestanna var einnig öflug en grænir unnu hana 41-33. Hjá Stjörnunni var Justin Shouse með 21 stig, 4 fráköst og 5 stoðsendingar og þeir Arnþór Freyr og Coleman voru báðir með 15 stig. 

 

Njarðvíkingar leiða því 2-1 í einvíginu en liðin mætast í sínum fjórða leik þann 29. mars næstkomandi í Ljónagryfjunni. Þar geta Njarðvíkingar komið sér í undanúrslit með sigri, ef Garðbæingar ná í sigur verður oddaleikur í Ásgarði þann 31. mars. 

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn – Bára Dröfn Kristinsdóttir 

Fréttir
- Auglýsing -