spot_img
HomeFréttirAnnað árið í röð sem Grindavík vinnur ekki leik í úrslitakeppninni

Annað árið í röð sem Grindavík vinnur ekki leik í úrslitakeppninni

Íslands- og bikarmeistarar KR urðu á dögunum fyrstir liða inn í undanúrslit Domino´s-deildar karla. Þetta gerðu þeir á kostnað Grindvíkinga og það annað árið í röð! KR lagði Grindavík 3-0 í 8-liða úrslitum þetta tímabilið og hið sama var uppi á teningnum á síðustu leiktíð en þá fór KR fyrst í gegnum Grindavík, svo Njarðvík og að lokum Tindastól á leið sinni að titlinum.

Annað árið í röð er Grindavík því sent út úr úrslitakeppninni án þess að vinna leik en fyrir síðasta tímabil hafði það ekki gerst síðan 2009-2010 þegar Snæfell sendi Grindavík 2-0 í sumarfrí eftir 8-liða úrslit. 

 

Síðustu tvö tímabil hefur KR því unnið sex leiki gegn Grindavík í röð í úrslitakeppninni og ef með er talin úrslitaserían 2014 sem KR vann 3-1 þá á síðustu þremur leiktíðum hefur KR 9-1 innbyrðisstöðu í viðureignum liðanna í úrslitakeppninni. 

 

Tímabilið 2012-2013 varð Grindavík Íslandsmeistari og mætti KR í undanúrslitum, þar höfðu Grindvíkingar betur 3-1 en vesturbæingar hafa drottnað yfir þeim 9-1 síðan í úrslitakeppninni. 

 

Þá gerðist það fyrst tímabilin 1990 og 1991 sem það kom fyrir tvö ár í röð að Grindavík vann ekki leik í úrslitakeppninni. 1990 datt liðið út 2-0 gegn KR og 1991 datt Grindavík út 2-0 gegn Njarðvík en þá voru bein undanúrslit og engin 8-liða úrslit. Jafnframt voru það tvö fyrstu skiptin sem Grindvíkingar tóku þátt í úrslitakeppninni. 

Mynd/ Bára Dröfn

Fréttir
- Auglýsing -