spot_img
HomeFréttir"Mínar dömur landa sigri"

“Mínar dömur landa sigri”

 

Næstkomandi miðvikudag, 30. mars, hefst úrslitakeppni Dominos deildar kvenna í körfubolta þetta árið. Þá fara af stað undanúrslitarimmur Hauka gegn Grindavík og Snæfells gegn Val. 

 

Spennan er mikil og ekki síst hjá stuðningsmönnum liðanna. Því ákváðum við að, meðal annars, taka stöðuna á einum stuðningsmanni hvers liðs fyrir sig til þess að reyna sem best að fá stemminguna beint í æð.

 

Við hefjum leik á stuðningsmanni liðs Vals, Bjarna Sigurðsson, en lið hans mætir Snæfelli í Stykkishólmi í fyrsta leik næstkomandi miðvikudag kl 19:15.

 

Hversu lengi og afhverju fórst þú að standa við bak Vals í körfubolta?

Þetta fara nú víst að verða rúm 35 ár.  Ég er fæddur og uppalinn í Valshverfinu og því kom eiginlega aldrei annað lið til greina, auk þess sem að margir af félögum mínum hófu að æfa og spila körfubolta með Valsliðinu á þessum árum og því gerðist ég nokkuð þaulsetinn á áhorfenda-bekkjunum, þeim til stuðnings.  Þetta voru líka viss gullaldarár í sögu körfuboltans í Val og mörgum titilum skilað í hús.

 

Hverjar eru þínar fyrstu góðu minningar af því að vera stuðningsmaður Vals?

Lengi framanaf var nú eingöngu um karlabolta að ræða, í Val og þar standa þessi fyrstu ár óneitanlega uppúr, hvað varðar titlafjölda og þess háttar glingur, en svo var að sjálfsögðu mikil hamingja þegar að kvennaboltinn tók til starfa 1994.

 

Hver er (einn) þinn uppáhalds leikmaður í liðinu í dag og afhverju?

Held að Gugga (Guðbjörg Sverris) verði að fá að njóta þess heiðurs, að öðrum ólöstuðum.  Ódrepandi orkubolti sem að getur alveg gert út um heilu leikina, ef að svo ber undir.

 

Hver er þinn "all-time" uppáhalds leikmaður og afhverju?

Það er nú alltaf erfitt að gera upp á milli barnanna sinna, eins og sagt er, en ef að við höldum okkur við kvennaboltann í Val, þá kemur Signý Hermanns þar nokkuð sterk inn.  Bæði var hún nú nokkuð lunkinn leikmaður og svo fannst mér hún alltaf öflug í því að keyra liðið áfram, í gegnum súrt og sætt.

 

Hvernig metur þú þetta einvígi gegn Snæfell?

Sé litið á töfluna, þá er kannski rökrétt að ætla að Snæfell fari með sigur í þessari rimmu, en hins vegar hafa þessir leikir á milli Vals og Snæfells oftast verið nokkuð jafnir og því held ég að þetta geti farið á hvorn veginn sem er.  Geri allavega ráð fyrir þrem ferðum í Hólminn, í fjárhagsáætlun næsta mánaðar.

 

Hverjir eru helstu styrkleikar Snæfells?

Þær hafa náttúrulega hefðina með sér og meiri reynslu af svona úrslitaleikjum, auk þess sem að heimaleikjarétturinn vegur alltaf nokkuð þungt.

 

Hverjir eru helstu styrkleikar Vals?

Ég myndi halda að varnarleikurinn sé okkar helsti styrkleiki, þegar Valsvörnin smellur saman þá eru ekki mörg lið sem að standast henni snúning.  Myndi og halda að pressan sé heldur meiri á Snæfelli, í þessari rimmu, sem að gæti komið okkur til góða.

 

Hvaða leikmaður Vals er lykillinn að sigri í þessari rimmu?

Ég hef trú á að það komi til með að mæða einna mest á Guggu (Guðbjörgu Sverris) í þessum leikjum, auk Karismu en þar sem að þetta er nú liðsíþrótt þá þá snýst þetta kannski bara um að þær spili allar sem ein og að þar sé lýkilleikmaðurinn fundinn.

 

Hvernig á serían eftir að fara?

Þar sem að hef nú löngum verið þekktur fyrir að láta bjartsýnina bera raunsæið ofurliði, þá ætla ég að spá þessu í æsispennandi oddaleik, þar sem mínar dömur landa sigri.

 

 

Ef rautt blóð rynni þér ekki í æðum, hvaða liði hefðir þú haldið með þennan veturinn og afhverju?

Hér er dálítið snúið að haga akstri samkvæmt aðstæðum, því að rauða blóðið er nokkuð ríkjandi.  Ég verð nefnilega að viðurkenna, svona okkar á milli, að Snæfellsliðið hefur löngum verið í öðru sæti hjá mér og kemur þar tvennt  til.  Bæði finnst mér að við Valsmenn höfum nú alltaf átt pínulítið í þessu Snæfellsliði (Alda, Mæja, Sara) og svo er ég Hólmari, að einum fjórða og römm er sú taug er rekka dregur föðurtúna til.  Eða eins og þau segja, þarna fyrir vestan, „Hólmurinn heillar“.

Fréttir
- Auglýsing -