spot_img
HomeFréttir"Feikilega öflugi hópur sem þær eru með"

“Feikilega öflugi hópur sem þær eru með”

 

Næstkomandi miðvikudag, 30. mars, hefst úrslitakeppni Dominos deildar kvenna í körfubolta þetta árið. Þá fara af stað undanúrslitarimmur Hauka gegn Grindavík og Snæfells gegn Val. 

 

Spennan er mikil og ekki síst hjá stuðningsmönnum liðanna. Því ákváðum við að, meðal annars, taka stöðuna á einum stuðningsmanni hvers liðs fyrir sig til þess að reyna sem best að fá stemminguna beint í æð.

 

Við hefjum leik á stuðningsmanni liðs Hauka, Kristinn Bergmann Eggertsson, en lið hans mætir Grindavík heima á Ásvöllum í fyrsta leik næstkomandi miðvikudag kl 19:15.

 

Hversu lengi og afhverju fórst þú að standa við bak Hauka í körfubolta?

Ég hef verið stuðningsmaður Hauka frá því ég fór á mitt fyrsta körfuboltanámskeið hjá Ingvari Jónssyni þegar ég var 8 ára gamall. Ég fylgdist ötullega með liðinu frá þeim tíma til 1998. Þá fór ég frá körfubolta í smá tíma en byrjaði aftur að fylgjast með af krafti frá tímabilinu 2010-2011.

 

Hverjar eru þínar fyrstu góðu minningar af því að vera stuðningsmaður Hauka?

Að vera 10-11 ára gamall snáði í Strandgötunni að berja í tóma Mackintosh dollu og öskrandi úr mér lungun.

 

Hver er (einn) þinn uppáhalds leikmaður í liðinu í dag og afhverju?

Það mun vera Auður Íris Ólafsdóttir. Tölfræðin sýnir það ekki hversu mikið hún leggur á sig og er hún eitt stórt hjarta þessi stelpa. Einstakur baráttujaxl sem hugsar fyrst og fremst um liðið.

Hver er þinn "all-time" uppáhalds leikmaður og afhverju?
Ég þarf að fá að skipta þessu upp í tvö tímatöl til 1998 og frá 2010. Til 1998 dáðist ég að Jóni Arnari Ingvarssyni og Pétri Ingvarssyni þar sem þeir voru hjarta liðsins. Frá 2010 er það Auður Íris Ólafsdóttir og er það sama upp á teningnum þar, hún er hjarta liðsins. Hef fengið að fylgjast með henni frá því hún var að taka sín fyrstu skref með meistaraflokknum og fá “rusl” mínútur í að verða mikilvægasti leikmaður liðsins líkt og hún var í fyrra.

Hvernig metur þú þetta einvígi gegn Grindavík?

Samkvæmt pappírnum þá ætti þetta að vera mjög gott einvígi þar sem Grindavík er með gríðarlega flottan hóp af íslenskum leikmönnum og öflugan kana. En þær hafa ekki verið að spila eins og væntingar voru gerðar til þeirra í vetur. Þær slógu Haukana vissulega út úr bikarnum, en með aðeins tveimur stigum á meðan þær töpuðu öllum fjórum deildarleikjunum með 14,5 stigi að meðaltali. Ég get alveg séð þær fyrir mér að ná einum mjög góðum leik eins og í bikarnum en það er bara ekki nóg í 5 leikja seríu. Á meðan hefur Haukum vaxið ásmeginn undanfarið og virðast þær vera komnar með blóðbragð í munninn og í augum þeirra glitrar gull.

Hverjir eru helstu styrkleikar Grindavíkur?

Besti leikmaðurinn þeirra er án vafa Whitney Michelle Frazier en gengi Grindavíkur mun ráðast á spilamennsku Sigrúnar Sjafnar Ámundadóttur og Petrúnellu Skúladóttur. Þær verða báðar að eiga mjög góðan leik til að Grindavík takist að sigra Hauka.

Hverjir eru helstu styrkleikar Hauka?

Það er auðvitað þessi feikilega öflugi hópur sem þær eru með. Fyrir utan það augljósa að þær séu með Helenu Sverrisdóttur og Pálínu Maríu Gunnlaugsdóttur innanborðs þá eru þar einnig Auður Íris Ólafsdóttir, Jóhanna Björk Sveinsdóttir og Sylvía Rún Hálfdanardóttir sem hafa verið að banka á landsliðsdyrnar í vetur. Svo er ekki amalegt að vera með reynslubolta eins og Maríu Lind Sigurðardóttur sem velur skotin sín af kostgæfni og er nánast 100% í þeim. Sólrún Inga Gísladóttir hefur einnig blómstrað í sínu hlutverki í vetur og Dýrfinna Arnardóttir hefur spilað mjög góða vörn á þeim mínútum sem hún hefur fengið.

Hvaða leikmaður Hauka er lykillinn að sigri í þessari rimmu?

Helena Sverrisdóttir er aðal og þarf hún ekki einungis að sjá um að leiða liðið í stigum heldur þarf hún líka að passa uppá flæðið og sjá til þess að hinir leikmennirnir komist inn í leikinn.

Hvernig á serían eftir að fara?

Mér finnst full hart að gefa Grindavík ekki neinn sigur þannig ég segi 3-1 fyrir Hauka

Ef rautt blóð rynni þér ekki í æðum, hvaða liði hefðir þú haldið með þennan veturinn og afhverju?

Ég hefði haldið með Stjörnunni. Ekki aðeins vegna nálægðar við Hafnarfjörðinn heldur vegna þess að ég var ánægður að sjá Margréti Köru Sturludóttur og Hafrúnu Hálfdánardóttur klæða sig aftur í búning. Þá hefði Helga Þorvaldsdóttir endilega mátt halda áfram að spila með liðinu en hún átti flotta endurkomu á parketið í fyrra.

Fréttir
- Auglýsing -