spot_img
HomeFréttir"Gæti verið að Stólarnir hafi kveikt verulega í Keflvíkingum"

“Gæti verið að Stólarnir hafi kveikt verulega í Keflvíkingum”

 

Fjórði leikur 8 liða úrslitaeinvígis Keflavíkur og Tindastóls fer fram norðan heiða, í Síkinu, kl 19:15 annað kvöld. Tindastóll vann fyrstu tvo leiki liðanna áður en Keflavík náði svo að svara með einum sigurleik nú fyrir helgina. Við ræddum létt við þjálfara Hattar, Viðar Örn Hafsteinsson, um hvernig honum þætti einvígið hafa verið hingað til og fjórða leikinn.

 

 

Hvernig finnst þér serían hafa verið?

Þessi sería hefur verið nokkuð skemmtileg. Gaman að sjá Hill takast á við sína gömlu félaga og það eru miklar tilfinningar í spilinu þar og oft tæpt hvort sá ágæti leikmaður ráði við það á köflum. Tindastólsmenn voru töluvert betri í fyrstu tveim leikjunum en svo sá maður mikil veikleikamerki í leik þrjú þegar Keflavík kom með "run" í þriðja leikhluta. Þá sá maður pirring og vonleysi í Tindastólsliðinu sem ekki hafði sést áður í seríunni.

 

Afhverju leiðir Tindastóll einvígið 2-1?

Það er einfaldlega þannig að mínu mati að þá er Tindastóll með betra lið núna, þeir hafa meiri styrk inní teig og fleiri vopn í sínum leik en Keflavík. Ég hef trú á því að Tindastóll klári þetta í leik fjögur á Króknum.

 

Hvaða máli skiptir fyrir Keflavík að hafa unnið síðasta leik nokkuð stórt?

Það gefur Keflvíkingum meiri trú á að þeir geti klárað þetta sem og meira sjálfstraust. Mér hefur fundist vera smá hik á Keflavíkurliðinu og þeir ekki jafn áræðnir og þeir voru fyrripart tímabilsins. Hinsvegar sá maður þeirra styrk í seinni hálfleik í leik þrjú þar sem þeir hittu vel fyrir utan og stjórnuðu hraðanum vel. Til þess að Keflavík eigi séns í að klára einvígið þá þurfa þeir algjöra topp leiki frá Val Orra, Gumma Jóns og Magga Trausta. Hill skilar sínu en hann verður að halda haus og passa að láta ekki tilfinningarnar teyma sig í ruglið. Hann var nálægt því í leik þrjú, en að mínu mati það að kæra þetta atvik er algjört bull. Hann á ekki að fara í bann, en dómarar leiksins hefðu átt að gefa honum óíþróttamannslega villu ef þeir hefðu séð þetta. Það gæti verið að Stólarnir hafi kveikt verulega í Keflvíkingum með þessari kæru sem í raun er fáranleg.

 

Hvernig á 4. leikurinn eftir að spilast?

Leikur 4 verður jafn framan af en Stólarnir verða með sterk tök á þessu allan tímann, þeir síga svo frammúr og vinna sannfærandi sigur. Þeir lentu í villuvandræðum í síðasta leik og auk þess vantaði Svavar Atla inn í róteringu sem mun breyta miklu að fá hann aftur inn í leik 4. Það verður varnarleikur Tindastóls sem ræður úrslitum í þessu og þeir ná að halda Keflvíkingum frá sínum leik sem er að halda uppi hraða og hitta vel fyrir utan.

Fréttir
- Auglýsing -