Tindastóll og Keflavík mætast í sínum fjórða leik í 8-liða úrslitum Domino´s-deildar karla í kvöld en viðureign liðanna hefst kl. 19:15 í Síkinu á Sauðárkróki. Staðan í einvíginu er 2-1 fyrir Tindastól og því þýðir Stólasigur í kvöld sumarfrí hjá Keflavík en ef Keflvíkingar ná í sigur verður oddaleikur í Keflavík.
Vel hefur verið kynt undir leiknum og á tíma héldu margir að Jerome Hill leikmaður Keflavíkur væri á leið í bann en aga- og úrskurðarnefnd KKÍ staðfesti að svo yrði ekki. Keflvíkingar ætla að fjölmenna og bjóða upp á fríar sætaferðir á Krókinn og verður lagt af stað kl. 14:00 frá Sunnubraut. Þið getið svo rétt ímyndað ykkur hvort Skagfirðingar fylli ekki Síkið svo það er von á veislu og það vitaskuld í þráðbeinni á Stöð 2 Sport.
Mynd/ Davíð Már Sigurðsson



