spot_img
HomeFréttirSterkir Stólar sendu Keflavík í sumarfrí

Sterkir Stólar sendu Keflavík í sumarfrí

Tindastóll sigraði Keflavík á heimavelli sínum, í Síkinu á Sauðárkróki, með 98 stigum gegn 68. Tindastóll er þar með 2. liðið sem tryggir sér þáttöku í undanúrslitum þessa árs, en KR hafði þegar tryggt sér miða eftir sigur á Grindavík. Í raun undir einvígi Stjörnunnar og Njarðvíkur komið hvaða lið það verði sem að Tindastóll mætir í undanúrslitunum. Sigri Stjarnan fá þeir KR, en ef Njarðvík sigrar, þá fá þeir annaðhvort Hauka eða Þór.

 

 

Keflavík hinsvegar komnir í sumarfrí snemma, á kunnulegum tíma reyndar. Því þetta er fjórða árið í röð sem að þeir fara út í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Þrjú af þessum skiptum hafa einmitt verið ákkúrat á þessum degi 28. mars.

 

Fyrir leikinn mátti kannski búast við hverju sem er. Lið Tindastóls, sem hafði fyrir síðasta leik í Keflavík verið á gríðarlegu flugi. Sigrað eina 8 leiki í deild og úrslitakeppni í röð. Keflavík hinsvegar verið á hálfgerðum afturfótum miðað við þá spilamennsku sem að liðið sýndi fyrir áramót.

 

Mikið hafði verið rætt um hugarástand leikmanna frá síðasta leik. Hvort leikmaður Keflavíkur, Jerome Hill, ætti að fara í bann fyrir brot sem náðist á myndband í síðasta leik? Sem og, hvort leikmenn Tindastóls, Anthony Gurley og Myron Dempsey væru sáttir með þær mínútur sem þeir voru að fá í leikjunum?

 

Í raun var ljóst alveg frá upphafi leiks í hvað stefndi. Tindastóll byrjar leikinn á 7-0 áhlaupi. Varnarlega voru Stólarnir firnasterkir þessar fyrstu mínútur. Viðar Ágústsson stöðvaði nánast allar aðgerðir sem áttu að fljóta í gegnum, Vals Orra Valssonar, leikstjórnanda gestanna og ef svo einkennilega vildi til að Keflavík kæmi boltanum inn til manns síðasta leiks, Jerome Hill, þá var boltanum annaðhvort stolið af honum eða hann settur í erfiða stöðu af Helga Rafn Viggósyni (2 varin skot, 2 stolnir boltar og 5 fráköst í 1. leikhluta). Tindastóll kláraði þennan fyrsta leikhluta með 19 stiga forskoti, 30-11. 

 

Eftir 1. leikhlutann var ljóst að ekki gengi allt Keflavíkurliðið heilt til skógar. Magnús Már Traustason var settur snemma á bekkinn (spilaði 3 mínútur í leiknum) sem og var Guðmundur Jónsson ekki alveg heill. 

 

Í öðrum leikhlutanum sýnir Keflavík það eina sem talist getur lífsmark af sér í leiknum. Það detta nokkur skot hjá þeim og þeir ná muninum niður í 14 stig. Mögulega er línan hér á undan að gera of mikið úr þessum kafla Keflvíkinga. Því hann varði stutt og honum var ekki fylgt neitt lengra. Þeir hreinlega litu út fyrir að gefast upp gegn mjög sterkum andstæðing. Tindastóll endar hálfleikinn á góðu áhlaupi og kemur muninum í 22 stig, 50-28.

 

Atkvæðamestur fyrir heimamenn í hálfleik var áðurnefndur Helgi Rafn (7 stig og 11 fráköst) á meðan að fyrir gestina var það tíðræddur Jerome Hill (9 stig og 2 fráköst).

 

Snemma í seinni hálfleiknum varð þeim sem héldu þennan leik ennþá opinn og að mögulega kæmi Keflavík til baka svarað. Tindastóll byggði bara enn á forystu sína í 3. leikhlutanum. Þegar að honum lauk voru þeir komnir með 33 stiga forystu og í raun leit allt út fyrir að Tindastóll ætlaði að skrifa í sögubækur Keflavíkur með því að verða það lið sem náð hefði að sigra þá með flestum stigum í leik í úrslitakeppni (metið stendur þó enn í 42 stigum og hefur verið skráð á Grindavík síðan árið 2000) Reyndar slökuðu þeir ekkert á þeim fyrr en um miðjan síðasta leikhlutann, en þá var munurinn einmitt kominn í það, 42 stig, 89-47.

 

Í fjórða leikhluta voru úrslitin einfaldlega ráðin. Ekki kannski vegna þess að 33 stiga munur er ómögulegur að vinna niður í körfubolta. Frekar vegna þess að Keflavíkurliðið í dag var hreinlega 10 númerum of lítið fyrir þetta gífurlega sterka lið Sauðkrækinga. Leikurinn endaði með 30 stiga sigri heimamanna, 98-68.

 

Maður leiksins var leikmaður Tindastóls, Helgi Rafn Viggósson, en hann skoraði 11 stig og tók 18 fráköst á 33 mínútum í leiknum.

 

Tölfræði

 

Myndir – Hjalti Árna

 

 

Punktar:

Tindastóll skilaði 131 framlagsstigi á móti 58 hjá Keflavík.
Tindastóll tók 52 fráköst á móti 35 hjá Keflavík.
Tindastóll gaf 26 stoðsendingar á móti 15 hjá Keflavík.
Tindastóll var með 49% skotnýtingu á móti 34% hjá Keflavík.
Tindastóll fór í 34 skipti á línuna á móti 17 skiptum hjá Keflavík.

 

 

Umfjöllun, viðtöl / Davíð Eldur

 

Myndir / Hjalti Árna

 

 

Fréttir
- Auglýsing -