spot_img
HomeFréttirHaukar unnu „þriller“ í Þorlákshöfn

Haukar unnu „þriller“ í Þorlákshöfn

Haukar  tryggðu sér í kvöld farseðil í undanúrslit íslandsmóts karla með 100-96 sigri á Þór Þorlákshöfn. Haukar léku án Brandon Mobley í leiknum en hann var í 1 leiks banni fyrir brot í síðasta leik liðanna.

Þórsarar voru sterkari aðilinn í fyrsta leikhluta og leiddu 25-19 að honum loknum. Þórsarar bættu í forskotið í öðrum leikhluta en þeir leiddu 54-40 í hálfleik. Þórsarar voru að hreyfa boltann meira í sókninni en þeir hafa verið að gera undanfarið og voru að hitta vel fyrir utan í fyrri hálfleik. Atkvæðamestir í hálfleik fyrir Þórsara voru Emil Karel Einarsson með 14 stig og Baldur Þór Ragnarsson með 12 stig en Haukur Óskarsson var með 10 stig fyrir Hauka. 

 

Allt annað var uppi á teningnum í þriðja leikhluta en Þórsarar komu engan vegin tilbúnir til leiks og skoruðu ekki sína fyrstu körfu fyrr en eftir 5:22 mínútur voru búnar af síðari hálfleik. Á meðan riðu Haukar á vaðið og náðu forystu Þórsara og leiddu fyrir fjórða leikhluta 66-62. Afleitur þriðji leikhluti hjá Þór en hann fór 26-8 fyrir Haukum. 

Fjórði leikhluti var algerlega í járnum allan tímann. Þórsarar voru að fara mikið inn á blokkina til Ragnars Nathanaelssonar og var hann að klára vel inn í teig. Haukamegin var Kári Jónsson að spila frábærlega. 

Þegar 26 sekúndur lifðu til leiksloka leiddu Þórsarar 87-85 en Kári Jónsson setti þá risastórann þrist og kom Haukum í 88-87 þegar 18 sekúndur voru eftir. Þórsarar geystu af stað í sókn og fundu Halldór Garðar Hermannsson í þrist sem geigaði en í frákástabaráttunni braut Finnur Atli Magnússon á Ragnari Nathanaelssyni þegar 2,6 sekúndur voru eftir. Þórsarar voru komnir í bónus þannig að Ragnar fékk 2 vítaskot. Það fyrra geigaði en það seinna fór ofan í svo að staðan var jöfn 88-88 og 2,6 sekúndur á klukkunni. Kári Jónsson hefði getað gert út um leikinn, en hann fékk opinn þrist sem að geigaði og því var ferðinni haldið í framlengingu. 

 

Framlengingin var mjög jöfn allann tímann og þegar 26 sekúndur voru eftir leiddu Haukar 98-96. Þórsarar héldu í sókn og Emil karel Einarsson tók 3ja stiga skot sem að geigaði. Emil Barja tók frákastið fyrir Hauka og Þórsarar brutu á honum. Hann fór á línuna með 2,7 sekúndur á klukkunni og setti bæði vítin niður og staðan því 100-96 fyrir Hauka. Það reyndust lokatölurnar því að Þórsarar náðu ekki að skora í lokasókn sinni. Það eru því Haukar sem báru 3-1 sigur úr býtum í þessari seríu og eru á leiðinni í undanúrslit en Þórsarar eru dottnir úr leik. 

 

Kári Jónsson átti stórleik fyrir Hauka með 30 stig og 8 fráköst, einnig var Haukur Óskarsson góður með 23 stig. Fyrir Þór var Ragnar Ágúst Nathanaelsson drjúgur með 18 stig, 12 fráköst og 4 varin skot og Emil Karel Einarsson var með 19 stig. 

 

Einar Árni Jóhannsson þjálfari Þórs um leikinn.

„Frábær fyrri hálfleikur en við komum ofboðslega slakir inn í seinni hálfleik. þessi 14 stig fóru á no time og ég held að við höfum farið að hugsa allt of mikið um það en vil samt hrósa strákunum  fyrir að vinna sig út úr því, þeir voru komnir í að mér fannst bæði í fjórða leikhluta og í framlengingunni með lykilinn í skráargatið en áttu bara eftir að snúa honum og bara klaufagangur að klára það ekki, en hrós á Haukana, þeir settu stór skot og þeim langaði þetta greinilega mjög mikið og ég verð að hrósa þeim fyrir það hvernig þeir tækluðu þessa seríu, þeir voru einfaldlega betri en við það verður að segjast eins og er.“

 

Einar Árni um tímabil Þórsara í heild sinni.

„Erfitt að sjá það jákvæða akkurat núna en auðvitað fullt af góðum hlutum við vorum að bæta okkur frá síðasta ári en við hefðum klárlega viljað gera betur í þessari seríu en það verður að horfast í augu við það að við vorum að fjárfesta í framtíðinni í vetur og vorum að spila á strákum sem eru ungir og eiga eftir að sækja sér meiri reynslu og það sást kannski munurinn. Þó að haukaliðið sé með töluvert ungt lið þá eru þetta strákar sem hafa verið lykilmenn þar síðustu 3 ár á meðan að við höfum færri stráka sem hafa reynslu af stöðu sem þessari en þetta er bara lærdómur og við herðumst við þetta og menn bara vinna vel í sumar og koma sterkir í haust.“

 

Ívar Ásgrímsson þjálfari Hauka um leikinn.

„Góður liðskarakter, við sýndum úr hverju við erum gerðir í seinni hálfleik við vorum ekki að spila okkar besta leik í fyrri hálfleik og vorum sloppy varnarlega og vorum að gefa eftir 3ja stiga skot og hlupum upp og vildum svara í sömu mynt, en um leið og við náðum að róa leikinn okkar í seinni hálfleik og bæta varnarleikinn þá kom þetta fljótt.“ 

Tölfræði leiksins

Myndasafn – Bára Dröfn
Umfjöllun – Vilhjálmur Atli Björnsson

Fréttir
- Auglýsing -