spot_img
HomeFréttirÖrvar: Hrifinn af báðum liðum

Örvar: Hrifinn af báðum liðum

 

Örvar Þór Kristjánsson er einn þeirra sem verið hefur félagsmaður hjá bæði Stjörnunni og Njarðvík. Öllu lengur í Njarðvík enda þar uppalinn en hann kom við í Garðabæ og kveðst hrifinn af báðum liðum. Karfan.is fékk Örvar til þess að rýna í oddaleik kvöldsins sem hefst kl. 19:15 í Ásgarði.

Þetta er undarlegt einvígi. Alveg merkilega skrítið. Á köflum ljómandi góður bolti og spennandi en svo hafa bæði lið átt sína slöku spretti og þá helst á heimavelli. Njarðvík hefur tvisvar komist í kjörstöðu en ekki náð að spila af sama krafti heima og úti – Í raun ótrúlega dapur heimavöllurinn hjá mínum mönnum árið 2016.

 

Ég er hrifinn af báðum liðum. Hef þjálfað marga leikmenn þarna og finnst i raun synd að bæði félög verði ekki í undanúrslitum. Stjarnan hefur auðvitað Justin sem er algjör gullmoli og leiðtogi liðsins. Coleman er svo virkilega öflugur og ef þessir tveir finna fjölina sína er erfitt að eiga við Stjörnuna. Ég held samt að X-faktorinn fyrir þá sé öflug liðsheild og öflugur varnarleikur.

 

Njarðvík hefur einnig frábært lið. Ég spái þeim áfram. Hef trú á þeim. Friðrik og Teitur gíra þá upp í þennan slag á eftir og Haukur Helgi sýnir það af hverju hann er besti leikmaður deildarinnar. Magic og Atkinson þurfa svo að koma með risastórt framlag, Njarðvík vinnur yfirleitt þegar Magic á góðan leik. Oddur hefur komið sterkur inn og liðið þarf á flottu framlagi hans að halda. Lykilinn að sigri verður þó gamla klisjan framlag frá liðsheildinni í vörn og sókn. Það er ekkert hægt að segja hverjum langar meira því ef mönnum langar ekki á þessum tíma eiga þeir að finna sér eitthvað annað að gera. Njarðvík vinnur með 8 stigum, Haukur leiðir þetta og smellir í myndarlega tvennu. Á pöllunum sigrar Njarðvík líka en ég hvet Garðbæinga til þess að fjölmenna, lið þeirra á það skilið.

 

Hvað framhald úrslitakeppninnar varðar þá vil ég hrósa Stöð2 Sport fyrir stórbrotna umfjöllun. Algjört nammi.

Fréttir
- Auglýsing -