Einum svakalegasta leik vetrarins var að ljúka þegar Njarðvíkingar tryggðu sig inn í undanúrslit Domino´s-deildar karla með 75-79 háspennusigri gegn Stjörnunni í Ásgarði. Um var að ræða eina oddaleik 8-liða úrslitanna þetta tímabilið og því ljóst að undanúrslitin í ár verða eins og í fyrra:
KR – Njarðvík
Haukar – Tindastóll
Þá verður að taka fram að enginn leikur í seríu Njarðvíkur og Stjörnunnar vannst á heimavelli, um eintóma útisigra var að ræða, það er tölfræði sem er ansi sjaldséð. Þá voru um 1200 manns sem sköpuðu ógleymanlega stemmningu í Ásgarði í kvöld.
Jeremy Atkinson gerði 20 stig og tók 10 fráköst í liði Njarðvíkinga og þá var Haukur Helgi Pálsson að daðra við þrennuna með 19 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar. Hjá Stjörnunni blæddi Tómas Þórður Hilmarsson bláu, þvílík barátta í drengnum, 9 stig, 14 fráköst og 3 stoðsendingar og Coleman var atkvæðamestur með 24 stig, 12 fráköst og 6 stoðsendingar.



