spot_img
HomeFréttirPalmer tók öll völd að Hlíðarenda

Palmer tók öll völd að Hlíðarenda

Íslands- og bikarmeistarar Snæfells þurftu á meistaraheppni sinni og Haiden Palmer að halda í dag til þess að komast í 2-0 gegn Val í Domino´s-deild kvenna. Um hörkuspennandi framlengdan slag var að ræða á Hlíðarenda þar sem Snæfell landaði 83-76 sigri. Í framlengingunni tók Haiden Palmer öll völd á vellinum en hún var að hóta fjórfaldri tvennu í dag með 41 stig, 20 fráköst, 6 stoðsendingar og 9 stolna bolta.

Staðan í einvíginu er því 2-0 fyrir Snæfell en Valskonur færast nær og nær því takmarki sínu að vinna loks leik gegn Hólmurum en nú eru þær á síðasta séns, þeim dugir ekkert annað en sigur í Stykkishólmi í næsta leik, annars er það sumarfrí sem bíður þeirra. 

 

Valskonur opnuðu slaginn 7-0 eftir þrist frá Hallveigu Jónsdóttur en Hólmarar voru ekki lengi að taka við sér og minnkuðu muninn í 7-6 með þrist frá Gunnhildi Gunnarsdóttur sem var einhverstaðar í óræðu fjarlægðinni millum þriggja stiga línunnar og miðju eða á svokölluðu Curry-svæði. 

 

Bæði lið voru vel uppi á tánum varnarmegin og börðust vel en Valskonur leiddu 21-18 að loknum fyrsta leikhluta þar sem Guðbjörg Sverrisdóttir kom niður þrist um leið og leikhlutinn rann út í sandinn. Fjörug byrjun á leiknum þar sem Karisma var með 8 stig og 5 fráköst í liði Vals en Palmer með 11 stig, 2 fráköst og 2 stoðsendingar í liði Snæfells. 

 

Skotnýting liðanna í fyrsta leikhluta:

Valur: Tveggja 38% – þriggja 38% – víti 0% (ekkert víti)

Snæfell: Tveggja 42% – þriggja 40% – víti 100% (2-2)

 

Gunnhildur Gunnarsdóttir var fljót að jafna metin 21-21 fyrir Snæfell þar sem hún opnaði annan leikhluta með þrist en vindarnir blésu með Val í öðrum leikhluta. Staðan var 9-9 í leikhlutanum eftir rúmlega fimm mínútna leik en þá losuðu þær Dagbjört og Guðbjörg aðeins um sóknarhömlurnar með tveimur Valsþristum og staðan 36-27. 

 

Bryndís Guðmundsdóttir fékk sína þriðju villu í leikhlutanum og lét það skiljanlega koma aðeins við kauninn í sér því tvær af þessum þremur villum voru dæmdar á Bryndísi eftir að sóknarmaðurinn hafði bersýnilega skapað „contactinn“ fræga og því alveg mátulegt að Bryndís hefði lýst vanþóknun sinni á niðurstöðunni.

 

Villuvandræði Bryndísar voru ekki helsta vandamál Snæfells í öðrum leikhluta því Palmer var löngum í sólóverkefnum og Gunnhildur sú eina á meðan sem var beitt sóknarlega. Valskonur voru hinsvegar með samstillt átak sín megin og leiddu því 44-39 í hálfleik. Palmer minnti rækilega á sig því hún bauð upp á flautuþrist fyrir Snæfell í lok fyrri hálfleiks og því flautuþristur í báðum leikhlutum fyrri hálfleiksins.

 

Palmer var stigahæst hjá Snæfell í hálfleik með 19 stig, 9 fráköst og 4 stoðsendingar en Karisma með 12 stig og 8 fráköst í liði Vals. 

 

Skotnýting liðanna í hálfleik:

Valur: Tveggja 39% – þriggja 38% – víti 70% (7-10)

Snæfell: Tveggja 40% – þriggja 40% – víti 88% (7-8)

 

Með meðvindinn frá flautuþrist Palmer komu Hólmarar sterkari inn í síðari hálfleikinn og opnuðu með 6-0 áhlaupi þar sem María Björnsdóttir var að spila vel. Valskonur skoruðu ekki stig fyrstu fimm mínútur þriðja leikhluta eða fyrr en Bergþóra Holton kom niður þrist og náði forystunni að nýju fyrir Val, 47-45. Snæfell vann þriðja leikhluta 14-16 sem þýddi þó að Valur var enn með forystuna 58-55 fyrir fjórða og síðasta leikhluta og von á ekki nokkru öðru en hjartastyrkjandi lokasprett.

 

Skotnýting liðanna eftir þriðja leikhluta:

Valur: Tveggja 42% – þriggja 30% og víti 71% (10-14)

Snæfell: Tveggja 47% – þriggja 31% og víti 78% (7-9)

 

Í fjórða leikhluta var hver karfa þyngdar sinnar virði í gulli og lítið skorað framan af leikhlutanum uns þær Guðbjörg Sverrisdóttir og Karisma settu tvo sterka þrista sem kom Val í 70-64 með rúmar fjórar mínútur eftir af leiknum. Næstu tvær mínútur tóku Hólmarar í að jafna leikinn 72-72 og lokaspretturinn var hádramatískur. Valur komst í 74-72 og heimakonur misnotuðu tvö vítaskot til að auka muninn í fjögur stig þegar mínúta lifði leiks. Palmer fór yfir og jafnaði leikinn 74-74 þegar tíu sekúndur voru eftir. Næsta sókn Vals var erfið og skotið við endalínuna ekki gott og því varð að framlengja í stöðunni 74-74. 

 

Skotnýting liðanna eftir fjórða leikhluta

Valur: Tveggja 41% – þriggja 30% og víti 63% (10-16)

Snæfell: Tveggja 48% – þriggja 31%  og víti 73% (11-15)

 

Gunnhildur Gunnarsdóttir gerði fyrstu stig framlengingarinnar og þá sannaðist hið fornkveðna að það lið sem fyrr skorar í framlengingu vinnur leikinn. Snæfell opnaði framlenginguna 7-0 og það var meira en Valskonur réðu við. Haiden Palmer var þeim erfið og í fjórða leikhluta og framlengingunni tók hún öll völd á vellinum og sá til þess að Snæfell heldur í Hólminn með 83-76 sigur í farteskinu og 2-0 stöðu í einvíginu. 

 

Valskonur léku með sorgarbönd á búningum sínum í dag sem virðingarvott við ömmu Guðbjargar Sverrisdóttur, Sigríði Kristjánsdóttur, sem féll frá á dögunum. 

 

Haiden Palmer bar af í liði Snæfells í dag með 41 stig, 20 fráköst, 6 stoðsendingar og 9 stolna bolta. Gunnhildur Gunnarsdóttir átti einnig afbragðsleik með 18 stig og 5 stoðsendingar og þá steig María Björnsdóttir vel upp í síðari háflleik með 11 stig, 3 fráköst og 3 stoðsendingar. Hjá Val var Karisma Chapman með 23 stig, 17 fráköst og 3 stoðsendingar og Guðbjörg Sverrisdóttir bætti við 18 stigum, tók 9 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. 

 

Skotnýting liðanna í leiknum

Valur: Tveggja 39% – þriggja 28% – víti 67% (12-18)

Snæfell: Tveggja 51% – þriggja 26& – víti 71% (12-17)

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn – Torfi Magnússon

Umfjöllun – Jón Björn Ólafsson

Fréttir
- Auglýsing -