Stórskyttan Kristján Pétur Andrésson hefur tekið við formennsku hjá körfuknattleiksdeild ÍR af Elvari Guðmundssyni. Formannsskiptin fóru fram á aðalfundi KKD ÍR í marsmánuði.
ÍR-ingar fá þarna nýjan formann en um leið missa þeir stórskyttu af parketinu þar sem Kristján mun taka sér hlé frá leiknum hið minnsta næstu leiktíð.
„Skórnir fara á hilluna í bili að minnsta kosti en þetta bætir samningsstöðuna mína til muna,“ sagði Kristján en kappinn er ekki þekktur fyrir annað en að vera léttur á manninn.
Kristján getur líka verið alvörugefinn og sagði: „Nú er ég í pínu pásu því ef maður ætlar að spila þá verður maður að vera 100% on! Þannig ákvað ég að taka formannsstarfið að mér enda með frábæra menn í kringum mig,“ sagði Kristján
Ljóst er að aðrir liðsmenn ÍR þurfa að moka í nokkuð væna þristaholu sem Kristján skilur eftir sig en hann verður hið minnsta í stúkunni að halda mönnum við efnið á næsta tímabili.



