Deildarmeistarar Hauka standa frammi fyrir nokkuð ögrandi aðstæðum þessa stundina en Haukar eru 0-2 undir í undanúrslitum Domino´s-deildar kvenna gegn Grindavík. Þriðja viðureign liðanna fer fram í Hafnarfirði í kvöld þar sem Haukar þurfa sigur eða sumarfríið nær í skottið á þeim.
Í fyrsta sinn á Íslandsmótinu þessa leiktíðina hafa Haukar tapað tveimur leikjum í röð. Það gerðist aldrei í deildarkeppninni. Í deildinni byrjuðu Haukar á sjö sigrum í röð, þá kom tap gegn Snæfell og eftir þann leik unnust fimm leikir í röð. Eftir þá kom annað tap gegn Snæfell og Haukar lokuðu svo deildarkeppninni með 10 sigra í röð og héldu inn í úrslitakeppnina sem langheitasta lið landsins.
Hvað gerðist á milli deildarkeppninnar og úrslitakeppninnar hjá Haukum? Einhverjir hafa viljað rýna í allt það sem á undan gekk í Hafnarfirði en er þá mögulega of mikið tekið frá athyglisverðri frammistöðu Grindvíkinga sem nú eru með alla reynsluboltana heila og klára í slaginn ef frá er talin dugnaðarforkur fyrri umferðarinnar, Lilja Ósk Sigmarsdóttir sem spilar ekki meira þessa vertíðina þar sem hún er með barni.
Haukar – leikjaþróun á Íslandsmótinu
Deildarkeppnin
7 sigrar í röð
tap gegn Snæfell 75-65, 29. nóvember – alls 8 leikir
5 sigrar í röð – alls 13 leikir
Tap gegn Snæfell 84-70, 19. janúar – alls 14 leikir
10 sigrar í röð, deildarkeppni lokið – alls 24 leikir
Úrslitakeppnin
Ósigur: Haukar 58-61 Grindavík
Ósigur: Grindavík 85-71 Haukar
Þetta er því í fyrsta sinn á tímabilinu sem Haukar þurfa að snúa við genginu sér í hag eftir tvo ósigra í röð og því óhætt að slá því föstu að viðureign liðanna í Hafnarfirði gæti orðið vægast sagt athyglisverð.
Haukar 0-2 Grindavík: Leikur nr. 3 í Schenkerhöllinni í kvöld!
Mynd/ Axel Finnur



