spot_img
HomeFréttirLárus tekur við báðum liðum í Smáranum

Lárus tekur við báðum liðum í Smáranum

Körfuknattsleikdeild Breiðabliks hefur gengið frá ráðningu Lárusar Jónssonar sem þjálfara meistarflokks karla og kvenna. Tekur hann til starfa þann 1. ágúst næstkomandi en ráðningin er til þriggja ára. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá KKD Breiðabliks.

Lárus er íþróttakennari að mennt með meistargráðu í alþjóðasamskiptum en efni lokaritgerðar var íþróttir án landamæra. Jafnframt hefur hann lokið diplómu námi hjá FIBA Europe vegna afreksþjálfunar yngri flokka.

Lárus hefur mikla reynslu sem leikmaður og þjálfari. Hann var yfirþjálfari meistarflokks Hamars á árunum 2011 til 2013. Þá hefur hann sinnt yngri flokka þjálfun bæði í Danmörku og Spáni. Leikmannaferill Lárusar nær yfir tæplega 12 ár, en mestan part ferilisins spilaði með Hamri í efstu og næstefstu deild. Lárus spilaði átta landsleiki fyrir A-landslið Íslands.

Stjórn körfuknattsleikdeildar Breiðabliks lýsir mikilli ánægju með ráðningu Lárusar og hlakkar til samstarfsins á komandi misserum.

Í tilkynningu Blika kemur einnig eftirfarandi fram:

Í samtali við Lárus hafði hann þetta að segja um starfið:

„Það leggst mjög vel í mig að taka við báðum meistaraflokkum hjá Breiðablik og gegna starfi yfirþjálfara yngriflokka.

Eitt af því sem mér finnst mjög spennandi við báða meistaraflokkana er hversu margir ungir og efnilegir leikmenn eru til staðar sem gætu sprungið út á næstu misserum. Mjög margir hæfileikaríkir leikmenn sem gætu náð langt með mikilli vinnu.

Annað sem mér finnst skipta miklu máli er að ný stjórn er skipuð fólki sem er með stórt blikahjarta og hefur mikinn metnað fyrir að byggja upp gott starf í Kópavogi.“

– Með þessu er ljóst að Jónas Pétur Ólason mun segja skilið við karlalið félagsins og Árni Eggert Harðarson stígur frá kvennaliði félagsins. 

Fréttir
- Auglýsing -