„Ég fór í Sixers körfuboltabúðirnar fyrir nokkrum sumrum síðan og maðurinn sem stjórnar búðunum hann hringdi í nokkra high school þjálfara hérna úti sem komu og sáu mig spila þar. Ég fékk svo skólastyrk í Westtown School þar sem ég hef stundað nám siðustu tvö árin, og spilað körfubolta með skólaliðinu meðfram því,“ sagði Hvergerðingurinn Dagný Lísa Davíðsdóttir í samtali við Karfan.is. Dagný skrifaði nýverið undir skólasamning við Niagara University sem leikur í 1. deild bandaríska háskólaboltans.
Dagný Lísa fór fögrum orðum um tíma sinn hjá Westtown miðskólanum:
„Þetta hefur verið alveg frábær lífsreynsla og ég hef haft mjög gaman af þessu. Þetta er samt mjög ólíkt öllu sem ég hef kynnst heima og margt sem ég þurfti að venjast, það er til dæmis lögð rosalega mikil áhersla á námið hérna. Körfuboltinn hérna er líka alveg til fyrirmyndar sem og allar aðstæður til íþróttaiðkunar. Liðinu gekk mjög vel í ár og við komumst í undanúrslit í deildinni okkar (Friends School League). Mér gekk mjög vel síðustu tvö tímabil með liðinu og var valin fyrirliði bæði árin. Ég mun sakna þess mjög mikið að spila með Westtown en ég er auðvitað mjög spennt fyrir komandi tímabilum með Niagara,“ sagði Dagný sem leist mjög vel á nýja háskólann sinn.
„Ég var búin að heimsækja þó nokkuð marga skóla áður en ég heimsótti Niagara, en fann strax að þetta væri skóli sem myndi henta mér mjög vel. Ég hef þekkt þjálfarann í skólanum frekar lengi þannig ég varð mjög spennt þegar hún hafði samband við mig, og ég er alveg sannfærð um að samstarfið með henni verði mjög gott.“
Dagný ætlar í viðskiptafræði við skólann sem er viðeigandi en móðir hennar Guðrún Hafsteinsdóttir er markaðsstjóri Kjörís í Hveragerði of formaður stjórnar Samtaka iðnaðarins. En býst Dagný ekki við því að stökkið verði stórt frá miðskólanum yfir í háskólann?
„Jú þetta verður stórt stökk. Ég býst aðallega við hraðari bolta og meiri átökum. Það er lögð ennþá meiri áhersla á styrktarþjálfun í háskóla þannig leikmenn eru mun stærri og sterkari en þeir sem ég er vön að spila á móti,“ sagði Dagný sem hefur alltaf sett stefnuna á kvennalandsliðssæti. Á hún von á að bið gæti orðið í þeim efnum verandi námsmaður í Bandaríkjunum, rétt eins og landsliðskonur á borð við Söru Rún, Margréti Rósu og Hildi Björgu þurftu að fella sig við að missa af síðustu landsliðsverkefnum Íslands sem í fyrsta sinn voru leikin í svokölluðum leikjagluggum?
„Ég verð hérna úti í að minnsta koti fjögur ár í viðbót og vissulega er kvennalandsliðið eitthvað sem ég hef alltaf stefnt á svo ég vona að skólavistin muni ekki koma algjörlega í veg fyrir möguleikann á því að berjast fyrir sæti í hópnum.“
Mynd/ Dagný Lísa í leik með Westtown miðskólanum.



