spot_img
HomeFréttirTrausti Eiríks fer yfir oddaleik Fjölnis og Skallagríms

Trausti Eiríks fer yfir oddaleik Fjölnis og Skallagríms

Trausti Eiríksson á hagsmuna að gæta þegar kemur að oddaviðureign Fjölnis og Skallagríms í 1. deild karla í kvöld en Skallagrímur er uppeldisklúbburinn hans og þá hefur hann verið á mála hjá Fjölni. Karfan.is fékk Trausta til þess að fara yfir oddaleikinn en ef hann mætti ráða væru bæði lið á leið sinni upp í úrvalsdeild. Oddaviðureign liðanna fer fram í Dalhúsum í kvöld kl. 19:15 og verður í beinni á Fjölnir TV á Youtube.

Ég held að aldrei hafi verið jafn spennandi og skemmtileg úrslitasería um það að komast upp í efstu deild karla og sú sem er í gangi núna. Leikirnir á milli Skallagríms og Fjölni hafa verið geggjuð skemmtun og ég á ekki von á öðru í kvöld.

Ég persónulega vildi að bæði liðin væru á leiðinni upp en það er því miður ekki að fara gerast. Fyrir utan þetta klassíska að lykilmenn þurfi að eiga góðan leik, skora fleiri stig en mótherjinn og vilja þetta meira þá eru nokkur atriði sem ég tel að þurfa ganga upp hjá liðunum í kvöld til þess að komast upp í Dominos pizzu deildina. 

Skallagrímur

Skallagrímur spilaði virkilega góða svæðisvörn sem svínvirkaði í seinasta leik. Cadot fær að standa í miðjunni og gera það sem honum finnst skemmtilegast varnarmegin á vellinum, verja skot og taka fráköst. Ef Fjölnir hafa ekki fundið betri lausnir en í seinasta leik við þessari vörn verður þetta erfitt kvöld hjá þeim.

Skallagrímur eru með betri einstaka leikmenn. Þrátt fyrir að það sé þvílík klisja þá þarf Skallagrímur að spila sem lið til þess að vinna. Í seinasta leik voru allir í Skallagrím að skila flottu framlagi og litu rosalega vel út. Það er eitthvað sem þeir þurfa að halda áfram að gera.

Hafþór Ingi er reyndasti leikmaðurinn og eini sem hefur almennilega reynslu af stórum leikjum sem þessum, hann er mikill leiðtogi og er mikilvægt að honum takist að halda spennustiginu innan leikmannahópsins á réttum stað.

Fjölnir

Fjölnir verða að hafa trú á verkefninu. Fyrir einvígið töldu flestir að þetta yrði auðvelt fyrir Fjölni en annað kom á daginn. Seinasti leikhlutinn í leik 4. einkenndist af andlegri uppgjöf hjá Fjölni en ég trúi ekki öðru en þeir séu búnir að ná sér upp úr þeirri holu.

Ungu strákarnir verða að vera áræðnari heldur en þeir hafa verið hingað til. Það eru fullt af mjög efnilegum strákum í Fjölni sem þurfa að taka af skarið í kvöld og sýna að þeir eigi skilið að fá tækifæri til að sýna sig í úrvalsdeildinni, þá sérstaklega Bergþór Ægir sem var frábær í fyrstu þremur leikjunum.

Fjölnir eiga að vera með líkamlega yfirburði í teignum en hafa ekki verið að nýta sér þá sérstaklega vel hingað til í seríunni, ef þeir finna leiðir til þess eru þeir til alls líklegir.

Grafarvogsbúar þurfa að fjölmenna. Ég veit það fyrir víst að það verður mjög vel mætt úr Borgarnesi og það skiptir öllu máli að Fjölnismenn geri það sama. Stuðningsmannasveitir beggja liðanna hafa sett skemmtilegan svip á þetta einvígi og það mun pottþétt halda áfram í kvöld.

Það er í raun ómögulegt að spá fyrir um hvernig þessi leikur mun fara en báðir þessir klúbbar eru með umgjörð, bakland, leikmenn og stuðningsfólk sem eiga heima í úrvalsdeild. Ég held að það sé ekki til betri leið til að eyða þriðjudeginum en að panta sér þriðjudagstilboð (hlýt að fá fría pizzu fyrir þetta „plug“) og mæta síðan beint á leikinn. 

Fréttir
- Auglýsing -