Hjalti Þór Vilhjálmsson þjálfari Fjölnismanna segir að oddaleikur Fjölnis og Skallagríms varpi góðu ljósi á tímabilið í heild hjá Fjölnismönnum. Karfan.is ræddi við Hjalta í morgun en Fjölnismenn verða í 1. deild karla á næstu leiktíð eftir tapið gegn Borgnesingum í gær. Hjalti sagði einnig að Fjölnismenn ættu ekki að sætta sig við neitt annað en að Fjölnir væri stórveldi!
„Þessi leikur í gær zoomeraði algerlega upp tímabilið hjá okkur. Erum að gera vel í 35 mínútur og svo koðnum við og menn verða passívir í stað þess að keyra sigrinum heim. Í fjórum af fimm leikjum gegn Sköllunum gerist þetta og í seríunni gegn ÍA gerist þetta þrisvar. Uppleggið fyrir þennan leik svínvirkaði og vorum við með þá í um 35 mínútur en þá koðnum við og þeir setja stórar körfur og við förum svo í að brjóta og þeir setja öll vítin niður. Mér persónulega fannst við hafa átt að vera 10+ yfir í hálfleik, vorum að ná að stoppa Sigtrygg og Jean en Kristófer gerði vel og var erfiður eins og hann hefur verið alla seríuna og var hann klárlega x-factorinn í þessari seríu fyrir Skallana. Skallagrímur gerði vel og eiga hrós skilið, umgjörð til fyrirmyndar, stuðningur frábær, leikmenn stigu upp og þjálfarar gerðu vel,“ sagði Hjalti en úrslit oddaleiksins í gær, hvað gætu þau þýtt upp á framhaldið fyrir Fjölni?
„Varðandi framhaldið að þá verður tíminn að leiða það í ljós. Hvað leikmenn varðar að þá ætlum við að halda kjarnanum og sjá svo til. Fjölnir er stór klúbbur sem á að vera í úrvalsdeild og er skandall að við skulum vera í 1.deild. Körfuknattleiksdeildin verður að fara í algera naflaskoðun og keyra þetta markvisst í gang. Stjórn, þjálfari og leikmenn allir verða líta inn á við og læra af þessu og gera mikið mikið betur. Allt of margir líta á Fjölnir sem litla liðið ekki bara fólk utan við Fjölnir heldur allt of margir í kringum félagið. Fjölnir á að vera Stórveldi og við eigum ekkert að sætta okkur við annað. Nú þarf bara að skoða hverju þarf að breyta til að svo verði á næstu árum.“



