Erik Olson hefur látið af störfum hjá FSu eftir fjögurra ára veru hjá félaginu. Olson sagði við Karfan.is að hann væri á förum af ýmsum ástæðum en á meðal þeirra væri að honum fyndist kominn tími á að finna sér nýjar aðstæður í körfuboltanum.
„Ég verð þó áfram á Íslandi og er spenntur fyrir sumrinu með U20 ára landsliði Íslands og spenntur fyrir því hvaða tækifæri skjóti upp kollinum næst og hvar.“
Olson sagðist einnig hafa notið tíma síns á Selfossi en verandi ungur þjálfari taldi hann þetta rétta tímapunktinn til þess að breyta til. „Mér standa nokkrir valmöguleikar til boða í Evrópu sem og í Bandaríkjunum sem ég hef áhuga á að skoða betur. Hvar þetta endar hjá mér á eftir að koma í ljós en ég er spenntur fyrir nýju umhverfi og vinnu með nýjum hópi.“
Olson kvaðst ánægður með það sem FSu afrekaði undir hans stjórn en hann fór m.a. með klúbbinn upp í úrvalsdeild en FSu féll svo úr Domino´s-deildinni á þessari leiktíð eins og kunnugt er.
„Ég stíg stoltur frá borði hjá FSu og stoltur af þeim hlutum sem við náðum að afreka, vöxtur margra leikmanna sem við unnum með er m.a. það sem heldur þjálfara við efnið. Leikmennirnir sem lögðu allt sitt í sölurnar og höfðu trú á mér í stjórastólnum eiga skilið meira hrós en hægt er að gefa. FSu hefði ekki staðið í sínum stórræðum án þeirra framlags,“ sagði Olson sem tekst á við U20 sumarið með íslenska liðinu en hvar hann ber niður næst er enn á huldu.



