Skammt er stórra högga á milli og nú aðeins degi eftir að þátttöku Íslands á EM í knattspyrnu er lokið er ekki úr vegi að huga að næstu tilraun okkar til ævintýra. Karlalandslið Íslands í körfuknattleik mun í ágúst hefja leik í undankeppni EuroBasket 2017. Riðillinn verður erfiður en sé tekið mið af því hve landinn er farinn að mæta glimrandi vel á landsleiki er ekki hægt annað en að gerast vongóður og freista þess að tryggja sér sæti í lokakeppni EuroBasket á næsta ári.
Í þessari undankeppni er Ísland með Belgíu, Sviss og Kýpur og leika þessi fjögur lið í A-riðli. Riðlarnir eru alls sjö talsins í keppninni og liðin 27 talsins. Sex riðlar innihalda fjögur lið og einn riðill inniheldur þrjú lið, sigurvegari í hverjum riðli mun komast í lokakeppni EuroBasket 2017 sem gerir því sjö lið, fjögur bestu liðin í 2. sæti (með bestan árangur) munu einnig komast á EuroBasket 2017. Riðlakeppnin mun því alls gefa af sér 11 sæti.
Á mótinu mun Kosovo taka þátt í fyrsta sinn í keppninni og Rússar eru mættir aftur til leiks eftir að hafa tekið út bann FIBA sem sett var á þjóðina í júlí 2015. Rússar voru settir í bann þar sem körfuknattleikssambandinu í Rússlandi hafði löngum staðið í óreiðurekstri.
Leikirnir í þessari forkeppni fara fram dagana 31. ágúst – 17. september.
Fyrsti leikur Íslands í keppninni er þann 31. ágúst næstkomandi þegar Sviss kemur í heimsókn. Þar næst er útileikur gegn Kýpur þann 3. september og aftur útileikur þann 7. september gegn Belgíu og þar með lýkur fyrri umferðinni.
Fyrsti leikur í síðari umferðinni er útileikur þann 10. september gegn Sviss og því tekur íslenska liðið þrjá útileiki í röð! Íslenska liðið lokar síðan riðlinum með tveimur heimaleikjum, sá fyrri 14. september gegn Kýpur og síðasti leikur riðilsins er gegn Belgíu þann 17. september.
Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Körfuknattleikssambands Íslands hefjast æfingar með stóru úrtaki hjá karlalandsliðinu þann 20. júlí og er von á því að sá hópur verði kynntur á næstu dögum. Þá er búist við því að lokahópurinn fyrir forkeppni EuroBasket 2017 verði valinn laust eftir verslunarmannahelgina.
EuroBasket 2017 mun notast við sama snið og EuroBasket 2015 með því að hafa fjóra riðla í fjórum mismunandi löndum en riðlakeppni úrslitanna fer fram í Finnlandi, Ísrael, Rúmeníu og Tyrklandi og úrslitaleikirnir verða svo í Tyrklandi.
Kemst karlalandslið Íslands á stórmót í annað sinn í sögunni? Svarið við þeirri spurningu er klárt eigi síðar en 17. september næstkomandi!
Mynd/ Jón Arnór Stefánsson sækir að Spánverjum í Berlín 2015.



