Njarðvíkingum er spáð falli úr Domino´s-deild kvenna þetta tímabilið en spáin var kunngjörð á blaðamannafundi KKÍ í Laugardal í dag. Agnar Mar Gunnarsson þjálfari Njarðvíkurkvenna sagði niðurstöðuna ekki hafa komið sér á óvart.
„Við erum með nánast sama hóp og komst ekki upp úr 1. deildinni svo þessi spá kom okkur ekki í opna skjöldu,“ sagði Agnar við Karfan.is í dag.
Njarðvíkingar þáðu boð um sæti í efstu deild fyrir þessa leiktíð og þó á brattann verði að sækja sagði Agnar: „Við erum með ungan hóp en nú eru allir árinu eldri og reyndari og við munum leggja allt okkar í sölurnar.“
Naskir tóku eftir því að Guðlaug Björt Júlíusdóttir sem er í Bandaríkjunum við háskólanám er komin á leikmannalista Njarðvíkinga. Agnar var með skýringu á því. „Ef einhverra hluta vegna að dæmið gengur ekki upp ytra kemur hún heim að leika fyrir uppeldisfélagið sitt en ég auðvitað vona að það gerist ekki og að Guðlaugu farnist sem best í Bandaríkjunum.“
Fyrsti leikur Njarðvíkinga í deildinni er á miðvikudag þegar Valskonur koma í heimsókn í Ljónagryfjuna.



