Íslandsmeistarar Snæfels hafa nú náð samningum við nýjan erlendan leikmann eftir að liðið lét Taylor Brown fara fyrir nokkrum dögum.
Aaryn Ellenberg er leikstjórnandi sem leikið hefur með yngri landsliðum bandaríkjanna og einnig á hún að baki leiki í WNBA deildinni með Chicago Sky.
Ellenberg er gríðarlega snöggur leikmaður, mikill skorari og getur búið til færi fyrir sjálfs sig. Í nýliðavalinu fyrir WNBA árið 2014 var hún talin mjög líkleg til að vera valin en það gerðist svo ekki. Síðar fékk Chicago hana til liðs við sig en Aaryn þykir víst ekki leiðilegt að skjóta fyrir utan þriggja stiga línuna sem ætti að nýtast Snæfell vel.
Fréttatilkynninguna frá Snæfell má sjá hér að neðan:
Körfuknattleiksdeild Snæfells hefur samið við bakvörðinn Aaryn Ellenberg um að leika með liðinu í Dominosdeild kvenna. Aaryn sem er um 170cm á hæð lék með Oklahoma háskólanum þar sem hún skoraði um 19 stig í leik, en síðustu tvö ár hefur hún leikið í Póllandi og síðast í Austurríki þar sem hún var valinn á Eurobasket leikmaður ársins með um 20 stig að meðaltali í leik.
Aaryn mun koma til landsins á sunnudag og verður því klár í slaginn gegn Keflavík miðvikudaginn 2. nóvember.
Frétt / Ólafur Þór Jónsson



