Skallagrímur tók á móti ÍR í Dominos deild karla í kvöld. Bæði lið voru með einn sigur eftir þrjár umferðir og gátu því komið sér frá botnsætunum í bili með sigri. Eftir frábæra byrjun Skallagríms þar sem staðan var 11-2 eftir fimm mínútna leik, hrundi varnarleikur Skallagríms og ÍR komst á bragðið.
Bæði lið náðu fínum áhlaupum en Skallagrímur tapaði 25 boltum í öllum leiknum og áttu fyrir vikið ekki séns Í ÍR liðið. Matthew Hunter var atkvæðamestur í liði gestanna með 26 stig en ÍR sigldi þessum sigri heim af yfirvegun og skynsemi. ÍR hafði á endanum sex stiga sigur 78-82.
Þáttaskil:
Eftir að Skallagrímur komst í 11-2 í byrjun leiks hrundi varnarleikurinn algjörlega og ÍR komst á bragðið. Eftir það stjórnaði ÍR hraðanum og allt varð mun auðveldara hjá þeim. Skallagrímur sýndi oft vilja á að komast inní leikinn aftur en krafturinn virtist ekki til staðar þar sem mikið var um einstaklingsmistök. Frábær byrjun ÍR í seinni hálfleik kaffærði lið Skallagríms sem komst aldrei almennilega inní leikinn eftir það.
Tölfræðin lýgur ekki:
Skallagrímur hafði mun betur í frákastabaráttunni gegn ÍR en á móti tapaði liðið 26 boltum gegn tíu hjá ÍR. Þessi tölfræði er gjörsamlega óviðunandi í efstu deild og það er allt að því ómögulegt að vinna leiki með slíkan fjölda af töpuðum boltum. ÍR hittir einnig ágætlega í leiknum og þá sérstaklega þegar leið á leikinn.
Hetjan:
Matthew Hunter hefur hlotið nokkra gagnrýni síðustu vikur en átti mjög fínan leik í dag. Hann dróg lið sitt áfram í fyrri hálfleik og tókst að setja körfur þegar allt virtist í strand hjá ÍR. Hann endaði með heldur óhefðbundna tvöfalda tvennu, 26 stig og 11 stolna bolta, geri aðrir betur.
Kjarninn:
ÍR gerði einfaldlega færri kjánaleg mistök heilt yfir og voru yfirvegaðri og skynsamari. Leikmenn Skallagríms ætluðu sér stundum um of og reyndu galnar sendingar og skot. Vörn ÍR stóð vel mest megnis af leiknum og þá sérstaklega þegar þeim tókst að skipta á hindrunum og menn töluðu. Mergur málsins er þó sá að borgnesingar geta nagað sig í handabökin því þessir 26 töpuðu boltar voru þeirra banabiti.
Mynd / Tomasz Kolodziejski



