spot_img
HomeFréttirKR-ingar lofa góðu

KR-ingar lofa góðu

 

 

KR-ingar höfðu landað 6 frekar þægilegum stigum fyrir heimsókn sína í Schenker-höll þeirra Haukamanna í kvöld. Stigasöfnun heimamanna hefur hins vegar ekki gengið eins vel – aðeins með 2 stig og ljóst að frekari stigasöfnun yrði býsna harðdræg gegn ógnarsterkum Vesturbæingum. Ekki bætti úr skák að Haukar léku án erlends leikmanns þetta kvöldið á meðan allir voru tilbúnir hjá KR nema reyndar besti körfuboltamaður landsins…

 

Þáttaskil:

Haukar byrjuðu leikinn prýðilega og komust í 8-3. Varnarleikur þeirra var fínn og KR-vörnin óvenju óþétt. Aðeins Siggi Þ. fann leiðina að körfunni fyrir gestina til að byrja með en það dugði til og leikurinn var í jafnvægi frameftir fyrsta fjórðung. Þá komu af bekknum, ég endurtek af bekknum, Pavel nokkur Ermolinskij og bandaríski leikmaður KR, Cedrick að nafni. Vörn gestanna þéttist verulega, flæði sóknarinnar allt annað og þeir leiddu 22-30 eftir dæmigerðan Brilla-þrist undir lokin.

 

Það tók svo gestina nokkrar mínútur í öðrum leikhluta að ganga frá leiknum. Að honum loknum voru gestirnir litlum 25 stigum yfir, 31-56. Skemmst er frá því að segja að hlutirnir skánuðu ekkert fyrir heimamenn í seinni hálfleik – KR-ingar leiddu með 30+ allan leikinn og unnu vægast sagt sannfærandi sigur 61-94. Það er alkunna að svokallaðir ,,minni spámenn“ fái að sprikla þegar svona stendur á og þá eiga leikir það til að jafnast dulítið. Það gerðist ekki í kvöld – einfaldlega vegna þess að ,,minni spámenn“ er algerlega óþekkt hugtak í Vesturbænum.

 

Tölfræðin lýgur ekki:              

Leikurinn endaði 61-94…það er engin lygi.

 

Hetjan:

Gaurinn á trommunum hjá Haukum hætti aldrei – þurfa lið ekki einmitt mest á stuðningi að halda í svona leikjum? Annars var KR-liðið heildina á litið frábært og áttundi maður inn af bekknum myndi styrkja flest lið í deildinni umtalsvert.

 

Tilþrif leiksins:  

Pavel átti gullfallega blindandi stoðsendingu í hraðaupphlaupi á Cedrick sem kláraði sóknina með dýrari týpunni af iðnaðartroði. Alveg nauðsynleg tilþrif í ójöfnum leikjum!

 

Kjarninn:

Heimamenn áttu bara engan séns í kvöld – Kanalausir gegn langbesta liði landsins. Þeir verða ekki dæmdir af þessum leik og vonandi vita þeir það best sjálfir. Þá ættu þeir að geta safnað liði og hefnt – ekki beint á KR en þá bara á næsta andstæðingi…

 

Gestirnir byrjuðu mjög rólega en voru samt búnir að klára leikinn fyrir hálfleik. Mjög margir lögðu sitt af mörkum og strax í fjórðu umferð má fara að líkja liðinu við einhvers konar vél – lesendur mega velja hvernig en hún er a.m.k. góð og áreiðanleg. Fyrir KR-inga var þessi leikur eins og nettur æfingaleikur – mótspyrnan ekki mjög mikil en spilamennska liðsins lofar góðu fyrir framhaldið.  

 

Undirritaður tók ekki tal af mönnum eftir leik enda fátt til umræðu eftir svona leik. Kanalausir áttu heimamenn engan séns og það er skuggalegt að hugsa til þess að besti körfuboltamaður landsins er víst í herbúðum KR-inga og mun sjást í búning fljótlega.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun / Kári Viðarsson

Mynd / Bára Dröfn Kristinsdóttir

 

 

 

Fréttir
- Auglýsing -