spot_img
HomeFréttirÞriðji sigur Þórs í sögunni í Ljónagryfjunni!

Þriðji sigur Þórs í sögunni í Ljónagryfjunni!

Þór Akureyri vann í kvöld sinn þriðja sigur í sögunni gegn Njarðvík í Ljónagryfjunni! Lokatölur voru 94-105 Þór í vil og er þetta í fyrsta sinn í sögunni sem Akureyringar skora 100 stig eða meira í Njarðvík! Gestirnir að norðan voru vel spilandi í kvöld, teygðu vel á Njarðvíkingum sem fundu aldrei dampinn varnarlega og eru 105 stig það mesta sem Njarðvíkingar hafa fengið á sig á leiktíðinni.

Bæði lið léku með sorgarbönd í kvöld, Njarðvíkingar vegna fráfalls Guðsteins Ingimarssonar og Eysteins Skarphéðinssonar en Þórsarar vegna fráfalls föðurs George Beamon leikmanns Þórsara. Fyrir leik var mínútu þögn í Ljónagryfjunni.

Fyrri hálfleikur var hnífjafn, mikið skorað enda staðan 52-57 fyrir Þór Akureyri í hálfleik. Jeremy Atkinson var allt í öllu hjá Njarðvíkingum með 20 stig í fyrri hálfleik en þeir Danero og Þröstur Leó nutu sín þegar Þór teygði á Njarðvíkingum og þökkuðu þeir jafnan fyrir sig með þristum. Þór með 8-12 í þristum í fyrri hálfleik og Þröstur Leó með 20 stig af bekknum á 12 mínútum. Alvöru innkoma.

Heimamenn í Njarðvík misstu flest allt fram hjá sér í fyrri hálfleik, varnarleikurinn fjarri því nægilega góður og Þórsarar sömuleiðis fá ekkert háa einkunn fyrir að fá á sig 52 stig en viðbúið var að ofuráhersla á varnarleik beggja liða kæmi til með að segja fljótt til sín í síðari hálfleik. Sú varð raunin reyndar ekki enda mikið skorað í kvöld.

Ein af fallegri tilþrifum leiksins áttu kollegarnir Þröstur Leó og Tryggvi Snær í fyrri hálfleik þegar Þór komst í 48-50 en þá gaf Þröstur laglega „alley-up“ sendingu á Tryggva sem endaði sko ekki í neinu bévítans sniðskoti. 52-57 í hálfleik.

Skotnýting liðanna í fyrri hálfleik
Njarðvík: Tveggja 73% – þriggja 36% og víti 75%
Þór Akureyri: Tveggja 60% – þriggja 66% og víti 60%

Allan ákafa vantaði í varnarleik heimamanna, Þórsarar héldu áfram í síðari hálfleik að sundurspila Njarðvíkurvörnina og heimamenn náðu lítið sem ekkert að fá „stopp“ á Þórsarana. Snemma í fjórða leikhluta komust Þórsarar tíu stigum yfir, 76-86. Njarðvíkingar fengu nokkur „look“ til að færa sig nærri en klaufagangur í kringum körfuna og hriplek vörn varð þeim einfaldlega að falli.

Nýliðar Þórs unnu í kvöld sinn fyrsta sigur í Ljónagryfjunni síðan árið 1989! Þetta var þriðji úrvalsdeildarsigur Þórs í Njarðvík, sá fyrsti kom 1971, annar árið 1989 og þriðji í kvöld og þá í fyrsta sinn sem Þór Akureyri rífur 100 stiga múrinn í Njarðvík. Þá átti Þröstur Leó Jóhannsson sinn langbesta leik í vetur með Þór, kom með 19 stig og 4 fráköst af bekknum en hann hafði mest gert 9 stig í tvígang fram að þessu á tímabilinu.

Athyglisverð framvinda hjá Njarðvíkingum upp á síðkastið, vinna Hauka og KR í leikjunum á undan, liðin sem börðust um Íslandsmeistaratitilinn en tapa gegn nýliðunum í kvöld daginn eftir að hafa ákveðið að láta Stefan Bonneau fara. Þar fór vissulega einn af sterkari leikmönnum deildarinnar en nauðsynlegar aðgerðir að mati Njarðvíkinga. Sigur Þórs undirstrikar þó kannski framar öllu hve jöfn deildin og spennandi hún er þetta árið.

Darrel Lewis lauk leik með 25 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar í kvöld þó hann hafi farið afar hægt af stað þá tók gamli við sér í síðari hálfleik. Þröstur var með gríðarlega mikilvæga innkomu en fimm liðsmenn Þórs gerðu 13 stig eða meira í leiknum! Njarðvíkingurinn Ragnar Helgi Friðriksson sem leikur með Þór komst vel frá sínu í kvöld með 7 stig og 4 stoðsendingar. Hjá Njarðvík var Jeremy Atkinson drjúgur með 31 stig og 7 fráköst og Björn Kristjánsson bætti við 21 stigi.

Njarðvík-Þór Ak. 94-105 (26-29, 26-28, 24-24, 18-24)
Njarðvík:
Jeremy Martez Atkinson 31/7 fráköst, Björn Kristjánsson 21, Logi  Gunnarsson 17/6 stoðsendingar, Johann Arni Olafsson 12/6 fráköst/5 stoðsendingar, Hilmar Hafsteinsson 5, Jón Arnór Sverrisson 4, Adam Eiður Ásgeirsson 2, Páll Kristinsson 2, Corbin Jackson 0, Gabríel Sindri Möller 0, Hermann Ingi Harðarson 0, Gunnlaugur Sveinn Hafsteinsson 0, Elvar Ingi Róbertsson 0.
Þór Ak.: Darrel Keith Lewis 25/7 fráköst/5 stoðsendingar, Þröstur Leó Jóhannsson 19/4 fráköst, George Beamon 18/7 fráköst, Danero Thomas 17/7 fráköst/7 stoðsendingar, Tryggvi Snær Hlinason 13, Ragnar Helgi Friðriksson 7/4 fráköst/7 stoðsendingar, Ingvi Rafn Ingvarsson 6/5 stoðsendingar, Einar Ómar Eyjólfsson 0, Jón Ágúst Eyjólfsson 0, Sindri Davíðsson 0.
Dómarar: Ísak Ernir Kristinsson, Rögnvaldur Hreiðarsson, Gunnlaugur Briem
Áhorfendur: 550

Fréttir
- Auglýsing -