Fyrirfram var búist við hörkuleik í Síkinu í kvöld þegar Skallagrímur mætti til að glíæma við heimamenn. Tveir fyrrverandi Stólar, Arnar og Flake, Flenard í fantaformi og Maggi Gunn sem allir áhorfendur elska að hatast við. En reyndin varð önnur.
Heimamenn í Tindastól keyrðu af hörku yfir Skalla frá fyrstu mínútu, Caird setti niður tvo þrista í fyrstu tveimur sóknunum, Pétur laumaði einu niður eftir að hafa stolið boltanum og Hester setti niður 2 víti og tróð svo ofan í kok á gestunum, staðan orðin 12-0 eftir tæpar 2 mínútur. Gestirnir klóruðu aðeins í bakkann með vel settum þristum en Stólar gáfu bara í aftur og staðan var orðin 33-16 eftir fyrsta fjórðung.
Fram að hálfleik ver eins og Tindastóll slakaði aðeins á og munurinn minnkaði um eitt stig, staðan 52-36 í hálfleik. Margt gladdi augað, einkum fantatroðsla Björgvins Ríkharðssonar og fjölmörg varin skot heimamanna.
Gestirnir byrjuðu seinni hálfleikinn ágætlega, skoruðu 6 fyrstu stigin og náðu að minnka muninn í 10 stig. Þá kviknaði á heimamönnum aftur og þeir skelltu í 17-4 run og skyndilega var munurinn kominn yfir 20 stig og Síkið að dansa. Pétur Rúnar var frábær á þessum kafla, skoraði 8 stig í röð og vór hamförum í vörninni. Eftir þetta var bara spurning um hve stór sigurinn yrði, heimamenn leiddu með 28 stigum eftir troðslu Björgvins í lok 3ja leikhluta. Mestur varð munurinn 33 stig en þegar tæpar 5 mínútur voru eftir af leiknum slökuðu heimamenn á klónni og leikurinn endaði með 22ja stiga sigri Stóla, 97-75.
Hester var öflugur í sínum fyrsta heimaleik og hlóð í tröllatvennu, 25 stig og 13 fráköst. Pétur Rúnar verður bara betri með hverjum leik og í kvöld skilaði hann 23 stigum og 7 stoðsendingum. Caird var með 14 stig og fór á kostum í byrjun og Björgvin skilaði 14 stigum af bekknum, nokkrum þeirra með vænum troðslum.
Hjá gestunum var Flenard sá eini sem var með lífsmarki, 32 stig og 17 fráköst takk fyrir. Það er ljóst að þeir þurfa miklu meira framlag frá öðrum til að eiga séns í svona leiki og því miður varð það ekki raunin í kvöld. Pétur hélt Arnari alveg niðri og náði kappinn einungis 7 stigum. Flake var einnig rólegur með einungis 5 stig og Maggi Gunn skoraði ekki kvikindi í leiknum og virtist ekki nenna þessu. Við vitum þó að Skallagrímur getur mun betur og ekki svo langt síðan að þeir sýndu það.
Umfjöllun / Hjalti Árnason
Mynd: Hester treður í 12-0



