spot_img
HomeFréttirHellirinn ómaði

Hellirinn ómaði

Þór Þorlákshöfn heimsótti ÍR-inga í Hertz-Hellinn í leik sem skipti bæði lið miklu máli. Breiðhyltingar voru að leitast eftir að ná öðrum sigri á heimavelli sínum og bæta stöðu sína í deildinni, en þeir eru í fallsæti sem stendur. Þórsarar hafa átt erfiðan nóvembermánuð og komu inn í þennan leik með 3 tapleiki í röð, þ.á.m. tap í naglbít gegn Tindastóli á þeirra eigin heimavelli í seinustu umferð. Eftir slakan fyrri hálfleik hjá gestunum og slakan þriðja leikhluta hjá gestgjöfunum náðu ÍR-ingar að halda forystunni allt þar til á seinustu sekúndu og unnu leikinn 74-72.

 

?ÍR-ingar, sem höfðu 10 stiga forskot í hálfleik, hófu seinni hálfleikinn hræðilega, en þeir hleyptu Þórsmönnum aftur inn í leikinn með því að skora aðeins 3 stig á móti 15 stigum þeirra á fyrstu 5 mínútum þriðja leikhlutans. Það áhlaup endaði á þristi hjá Maciej Baginski úr horninu til að gefa Þórsurum forystuna, 46-48. Þá loksins fóru heimamenn í gang, en í næstu sókn komst Matthías Orri Sigurðsson hæglega fram hjá varnarmanni sínum og smellti boltanum út á Kristin Marinósson sem setti þrist til að gefa ÍR forystuna á ný, 49-48.

 

Það sem eftir lifði af hálfleiknum var aldrei meira en 5 stiga munur á liðunum og strákarnir úr Breiðholtinu svöruðu öllum áhlaupum gestanna allt til loka. Þó munaði minnstu að úrslitin yrðu önnur á lokamínútu leiksins þegar að Maciej setti þriggja stiga skot, spjaldið ofan í, með innan við 15 sekúndur eftir á klukkunni og bæði lið búin með leikhléin sín. ÍR-ingar töpuðu boltanum með 9 sekúndur eftir á leikklukkunni en Þór Þorlákshöfn gat ekki stolið sigrinum á lokasekúndunum.

 

Jafnt var á liðunum í flestum tölfræðiþáttum leiksins fyrir utan einn. ÍR tók 48 fráköst á móti 32 hjá Þór Þorlákshöfn og þar af tóku þeir 10 fleiri sóknarfráköst (17 á móti 7). Þessi sóknarfráköst skiluðu sér í 9 fleiri skotum utan af velli sem dugði til að tryggja þeim sigur. Liðin tóku til að mynda jafnmörg vítaskot en gestirnir settu 5 fleiri víti niður en heimamenn (ÍR: 70%, Þór Þ.: 91%), sem hefði líklega skilað sigri ef þeir hefðu takmarkað sóknarfráköst Breiðhyltinga.

 

Þó að um mikinn liðssigur hafi verið að ræða ber að nefna Matthew Hunter, sem hefur átt erfitt uppdráttar undanfarið og gæti þess vegna verið á leiðinni í varanlegt frí um áramótin. Á lokamínútum leiksins náði hann að takmarka Tobin Carberry, framlagshæsta leikmann Þórs, og átti m.a. einn mikilvægasta stuld leiksins. Þegar rétt rúm mínúta var eftir af leiknum var staðan 69-67 fyrir ÍR og Þórsarar komu í sókn. Hunter stal tæpri sendingu Carberrys og í næstu sókn ÍR-inga setti foringinn sjálfur, Sveinbjörn Claessen, þrist úr horninu til að breyta tveggja stiga leik í fimm stig leik.

 

Liðsmenn Þórs Þorlákshafnar verða núna að fara í naflaskoðun og reyna að koma sér úr þessari lægð sem þeir eru í einmitt núna. Eftir að hafa tapað fyrsta leik tímabilsins á móti Grindavík unnu þeir næstu 4 leiki í röð (sá seinasti útileikur á móti KR) og hafa núna tapað 4 leikjum í röð. Þeir eru núna í 7. sæti deildarinnar og hafa einungis nokkra daga til að rétta kútinn af áður en þeir mæta Herði Axeli og Keflavík í útileik í Maltbikar karla. ÍR-ingar eru núna jafnir að stigum með Keflavík, sem eiga reyndar leik til góða. Þeir eru í 11. sæti deildarinnar og ef þeir geta byggt á þessum sigri og stolið einum og einum heimaleik í viðbót gætu þeir bjargað sér úr fallsætinu. Miðað við hve líflegir áhorfendur í Hertz-Hellinum voru í kvöld gætu liðsmenn ÍR alveg nýtt sér meðbyr stuðningsmanna sinna og gert Dominos deild karla ennþá meira spennandi en hún er nú þegar!

 

Tölfræði leiksins

Myndasafn úr leiknum

 

 

Umfjöllun / Helgi Hrafn Ólafsson

 

Myndir / Bára Dröfn

 

Viðtal við Borce þjálfara ÍR:

 

Viðtal við Einar Árna þjálfara Þórs.

 

 

Viðtal við Sveinbjörn Claessen leikmann ÍR

Fréttir
- Auglýsing -