spot_img
HomeFréttirHrafn: Engin flugeldasýning heldur harðsóttur varnarsigur

Hrafn: Engin flugeldasýning heldur harðsóttur varnarsigur

Hrafn Kristjánsson þjálfari Stjörnunnar var sáttur með varnarsigurinn gegn Grindavík í kvöld:

 

Stjörnumönnum hlýtur að vera svolítið létt að ná þessum sigri eftir tvo tapleiki:

„Jújú, við þurftum svolítið að skoða hvernig við vorum að koma inn í leiki og hvernig við bregðumst við áreiti og fullt af öðrum hlutum. Það sem mér fannst í raun jákvæðast við þennan leik var að þetta var engin flugeldasýning heldur harðsóttur varnarsigur. Mér finnst líka jákvætt að við skyldum koma inn í þennan leik og byrja eins og menn.“

 

Já, þið byrjið leikinn mjög vel, einkum varnarlega, en náið ekki alveg að halda sama tempói í öðrum leikhluta?

„Neinei, þú heldur ekki svona frammistöðu uppi á móti svona góðu liði í 40 mínútur. En mér fannst við leggja grunninn að sigri með byrjuninni. Tómas Heiðar spilaði algerlega stórkostlega vörn á Clinch, mér fannst hann bara eins og límdur fyrir framan hann allan leikinn nema kannski í einstaka skipti þar sem Clinch bjó sér til pláss með lausu hendinni – mér fannst Tómas vera alveg frábær í þessum leik. “

 

Nákvæmlega, Clinch var með 4 stig þegar lítið var eftir af 3ja leikhluta. Það skiptir miklu máli.

„Við spiluðum auðvitað líka fína liðsvörn en Tómas var greinilega mjög fókuseraður á það verkefni sem hann var settur í og búinn að lesa vel það sem við vorum búnir að undirbúa í sambandi við Clinch.“

 

Akkúrat – og það má kannski segja að þið eigið svo talsvert inni sóknarlega, þessi leikur var kannski ekkert sérstakur hjá ykkur sóknarlega?

„Til að byrja með þá hreyfðum við boltann alveg frábærlega en þegar við fórum að rúlla varamönnum inn á og þeir ýta aðeins upp varnarlega þá hættum við aðeins að hreyfa boltann. En það er gott að geta leitað í þennan jákvæða hluta og reyna bara að lengja í honum í næsta leik.“

 

Eitt að lokum – nú virðist það vera svo að þeir í körfuboltakvöldi stýri mannaráðningum liða í deildinni – hvenær ætlar þú að fylgja þeirra ráðum?

„Þessir strákar heita varla sínum nöfnum lengur – þeir heita alltaf bara ,,Kaninn“ í öllum liðum! Það réð því ákveðin hugsun þegar ég tók hann og fæstir sem hafa tjáð sig um þá hugsun hingað til hafa hugmynd um hvað þeir eru að tala um. Ekki það að þeir viti ekki neitt um körfubolta heldur af því að þeir þekkja mig greinilega ekki alveg nógu vel. Auðvitað vill maður hafa hann kannski meira afgerandi en það sjá allir hvað býr í honum og þrátt fyrir allt þá erum við enn við toppinn á deildinni og ég ef smá tíma til að hugsa mig um.“

 

Undirritaður veitti svo Hrafni andlegan stuðning í þessu máli og er það Hrafni vafalaust mikill styrkur!

 

Viðtal / Kári Viðarsson

Mynd / Bára Dröfn – Hrafn skartaði nýrri peysu í leik kvöldsins.

Fréttir
- Auglýsing -