Grannaglíma Keflavíkur og Njarðvíkur fór fram í Domino´s-deild kvenna í dag. Keflavík á toppnum, nýliðar Njarðvikur í 4. sæti fyrir leik. Keflavík tók snemma forystuna en Njarðvíkingar söxuðu hana niður nokkrum sinnum og hótuðu að komast nærri en þá sleit Keflavík sig frá að nýju og lokaði svo verkefninu 79-59. Emelía Ósk Gunnarsdóttir var stigahæst hjá Keflavík í dag með 14 stig, 13 fráköst og 3 stoðsendingar en Carmen Tyson-Thomas var atkvæðamest í liði Njarðvíkinga með ruddalega tvennu eða 39 stig og 17 fráköst.
Gæsahúðin á Njarðvíkingum var eitthvað að stríða þeim í upphafi leiks því Keflvíkingar byrjuðu 8-0 og gestirnir komust varla yfir miðju! Keflvíkingar dreifðu vel úr Njarðvíkurvörninni í fyrsta leikhluta, fengu góð „lúkk“ og Erna Hákonar splæsti í tvo þrista en Carmen Tyson-Thomas vildi ekki missa af lestinni og tók til sinna ráða, skoraði 15 af 18 stigum Njarðvíkinga í fyrsta leikhluta sem Keflvíkingar leiddu 23-18.
Njarðvík byrjaði vel í öðrum leikhluta, minnkuðu muninn í 25-22 en Keflavík var alfarið við stýrið eftir það út háflleikinn. Keflavík vann næstu mínútur 22-8 og leiddu því 47-30 í hálfleik. Njarðvíkingar gerðu vel að minnka muninn í þriðja leikhluta, komust næst 55-46 en Keflavíkurvörnin var þétt og þvingaði gestina áfram í erfiðar sendingar og á stundum í sendingar þar sem var enginn viðtakandi. Keflvíkingar leiddu þó 61-46 eftir þriðja leikhluta sem þýddi að Njarðvík hafði náð að minnka 17 stiga forystu Keflavíkur um eitt stig, fjórði yrði því brekka hjá gestunum.
Í upphafi fjórða leikhluta smellti Carmen niður þrist fyrir Njarðvíkinga og minnkaði muninn í 64-51 en heimakonur brunuðu strax yfir og skoruðu. Gestirnir úr Njarðvík fengu fá „stopp“ á Keflavíkurliðið og ekki ósvipað og með karlalið félagsins vantar mun meiri ákefð í varnaraðgerðir Njarðvíkurkvenna. Enginn skortur var á þeim Keflavíkurmegin og einn af lyklunum að sigri dagsins hjá Keflavík var hve oft þær þvinguðu Njarðvík í vandræði á opnum velli og refsuðu svo fyrir það. Leiðir skildu á lokasprettinum og Keflavík kláraði dæmið 79-59.
Stöllurnar Emelía Ósk og Thelma Dís voru báðar með tvennu í liði Keflavíkur, Emelía með 14 stig og 13 fráköst en Thelma Dís með 10 stig og 14 fráköst og þá kom Birna Valgerður sterk inn af bekknum með 13 stig og 4 fráköst. Hjá Njarðvík var Carmen eins og áður segir langatkvæðamest með 39 stig og 17 fráköst en næst henni voru Björk Gunnarsdóttir og Hulda Bergsteinsdóttir báðar með 6 stig.
Keflavík hefur nú fjögurra stiga forystu á toppi deildarinnar með 20 stig þar sem Stjarnan vann Snæfell. Njarðvíkingar eru áfram í 4. sæti deildarinnar en nú jafnar Stjörnunni að stigum.
Það skyldi engan undra við að sjá Keflavík á toppi deildarinnar en varnarleikur þeirra er sterkur, pressa maður á mann allan völl og blása vart úr nös. Lið verða að fara afar gætilega með boltann gegn þeim en þetta var fimmti sigurleikur Keflavíkur í röð. Ungu liði Keflvíkinga fórst það vel úr hendi að vera við stýrið, halda forystunni og þvinga Njarðvíkinga í vandræði. Þetta höfum við séð oftsinnis á tímabilinu hjá þeim og því ekkert sem ætti að koma á óvart við velgengi þeirra.
Mynd og umfjöllun/ [email protected] – Birna Valgerður gerir 2 af 13 stigum sínum í leiknum, hún kom sterk inn af Keflavíkurbekknum í dag.



