Atvinnumennirnir okkar í Evrópu létu að sér kveða þessa helgina. Sigurður Gunnar Þorsteinsson daðraði við tvennu í Grikklandi og Íslandsvinurinn Stefan Bonneau var stigahæstur í danska Íslendingaliðinu Svendborg.
7. desember – franska Pro B deildin
Rouen 76-77 Provence
Haukur Helgi Pálsson og félagar í Rouen létu toppið Provence hafa vel fyrir hlutunum en það dugði ekki að sinni. Haukur Helgi var stigahæstur í liði Rouen með 15 stig, 4 fráköst og 8 stoðsendingar en hann hefur verið að hlaða í betra og betra form eftir höfuðhöggið sem hann varð fyrir í upphafi leiktíðar. Rouen er með 2 sigra og 7 tapleiki á botni deildarinnar ásamt Boulogn og Blois.
9. desember – franska Pro B deildin
Le Havre 64-80 Charleville
Öruggur útisigur hjá Martin Hermannssyni og félögum í Charleville. Martin gerði 8 stig í leiknum á 26 mínútum en hann var einnig með 3 fráköst og 2 stoðsendingar. Charleville er í 2. sæti deildarinnar með 7 sigra og 2 tapleiki en á toppnum trónir Provence Basket með sigur í öllum 9 leikjunum sínum til þessa.
9. desember – LEB Gold á Spáni
CB Clavijo 72-79 Burgos
Ægir Þór Steinarsson kom af bekknum í liði Burgos með 3 stig, 1 frákast og 1 stoðsendingu á 13 mínútum. Góður útisigur hjá Burgos sem er í 4.-9. sæti deildarinnar með 9 sigra og 5 tapleiki. Þrjú lið, Oviedo, Palencia og Gipuzkoa, eru öll jöfn á toppnum með 10 sigra og 4 tapleiki svo það getur ýmislegt enn gerst.
9. desember – LEB Gold á Spáni
Ourense 79-55 Caceres
Ragnar Nathanaelsson lék í 8 mínútur fyrir Caceres í leiknum en náði ekki að skora. Hann var með eitt varið skot á þessum tíma en Caceres er í 12. sæti LEB Gold um þessar mundir með 6 sigra og 8 tapleiki.
9. desember – sænska úrvalsdeildin
Boras 89-88 Lulea
Framlengja varð leikinn þar sem Jakob Örn Sigurðarson og félagar í Boras höfðu betur gegn toppliði Lulea. Sjaldséð en Jakob skoraði ekki í leiknum þrátt fyrir tæplega 38 mínútna leik! Fremur kaldur okkar maður þennan daginn með 0-3 í teignum og 0-5 í þristum ehn hann var með 7 fráköst, 5 stoðsendingar og einn stolinn bolta. Eftir sigurinn er Boras í 4. sæti deildarinnar með 7 sigra og 6 tapleiki.
10. desember – gríska úrvalsdeildin
Irakleio 65-66 AE Larissas
Sigurður Gunnar Þorsteinsson og félagar í AE Larissas náðu í nauman útisigur og eru í 5. sæti grísku A2 deildarinnar eftir helgina. Okkar maður gerði 11 stig í leiknum á 32 mínútum en hann var einnig með 9 fráköst, 1 stoðsendingu og 2 stolna bolta.
11. desember – danska úrvalsdeildin
Stevnsgade SuperMen 73-98 Svendborg Rabbits
Góður sigur hjá Svendborg sem komið er í 3. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar. Þetta var jafnframt fyrsti leikur Stefan Bonneau með Svendborg og var kappinn stigahæstur með 16 stig en hann lék í 25 mínútur komandi af bekknum. Axel Kárason byrjaði inná og gerði 9 stig á tæpum 25 mínútum og var einnig með 5 fráköst. Næsti leikur Svendborg er 17. desember gegn Randers sem er í 4. sæti deildarinnar.



