spot_img
HomeFréttirHaukar láta Keliu Shelton fara

Haukar láta Keliu Shelton fara

Kelia Shelton mun ekki leika meira með Haukum á þessu tímabili og eru Haukar því í leit að nýjum erlendum leikmanni. Þetta sagði Ingvar Þór Guðjónsson þjálfari liðsins við Karfan.is í dag.

 

Kelia lék aðeins fjóra leiki með liðinu en hún var með 14 stig og 11,8 fráköst að meðaltali í leik. Einungis mánuður er síðan hún kom til liðs við félagið en hún stóð ekki undir þeim væntingum sem til hennar voru gerðar. Kelia tók við af Michelle Mitchell sem var látinn fara í byrjun nóvember og þurfa Haukar því að hefja leit í þriðja skiptið á þessu tímabili.

 

Ingvar Guðjónsson þjálfari Hauka staðfesti þessar fregnir er Karfan.is leitaði til hans í dag. Hann sagði mikla eftirsjá eftir Keliu í klefanum en aðrir hlutir hafi orðið til þess að Haukar þyrftu að leita annað.

 

„Kelia er frábær stelpa sem að passaði vel inní hópinn og aðlagaðist liðinu vel. Frammistaðan á vellinum var ekki nægilega góð og ekkert sem benti til þess að það myndi lagast. Við höfðum ekki séð neinn stígandi í hennar leik.“

 

Ingvar sagði að leitin væri hafinn en ekkert væri enn ákveðið í þeim málum. Haukar sitja í síðasta sæti deildarinnar með 6 stig, jafn mikið og Grindavík. Liðið hefur tapað fimm leikjum í röð og mætir Njarðvík á heimavelli í fyrsta leik eftir áramót. 

 

Mynd / Bára Dröfn 

Frétt / Ólafur Þór Jónsson

Fréttir
- Auglýsing -