Það vex eitt blóm fyrir vestan… og það hefur sett niður nokkrar línur um leiki kvöldsins og seríurnar tvær sem rúlla af stað með kvöldinu í úrslitakeppni Domino´s-deildar karla. Sturla Stígsson á von á 3-1 sigri KR í seríunni gegn Njarðvík og að ÍR sópi Stjörnunni út í sumarið. Verður okkar maður fyrir vestan sannspár?
KR – Njarðvík
Ef ég hefði verið spurður fyrir tímabilið hvort Njarðvík ætti séns í KR þá hefði ég hlegið. Núna 6 mánuðum, haug af aldurstengdum meiðslum, nokkrum aðgerðum, og einum Brilla síðar þá hlæ ég ennþá, bara ekki jafn hátt. KR er ennþá með Geitina, tveggja metra leikstjórnanda og Kristófer Acox. Njarðvík er með útbrunninn Loga (pun intended), bensínlausa Natvél og ekki mikið meira. 3-1 fyrir Vesturbæinn en Njarðvík nær einum sigri með 20-20 frammistöðu frá Natmanninum og blast-from-the-past leik frá Loga.
ÍR – Stjarnan
ÍR-ingar eru loks búnir að hrista af sér slyðruorðið og áttu sitt besta tímabil í 23 ár, eða síðan John Rhodes réð ríkjum í Breiðholtinu tímabilið 1994-1995. Það tímabil var þeim reyndar sópað út í fyrstu umferð og enn möguleiki á að sagan endurtaki sig og að við fáum klassískt ÍR tímabil.
Stjarnan hefur bara verið stöðugt í einum hlut í vetur og það er hversu óstöðugir þeir eru og ekki hjálpar að kaninn þeirra virðist varla hafa burði til að byrja í 3. deildinni miðað við frammistöðu síðustu leikja. Eins mikið og að körfuboltaguðirnir virðast hata ÍR á köflum að þá er það ekki yfirsterkara getuleysinu í Stjörnunni. ÍR sópar þessu í þremur.



