Heil umferð fer fram í Domino´s-deild kvenna í kvöld og beinast nú sjónir allra að Fjósinu í Borgarnesi þar sem lokasæti úrslitakeppninnar gæti ráðist! Allir leikir kvöldsins hefjast kl. 19:15.
Það eru Skallagrímur og Stjarnan sem mætast í Fjósinu í kvöld, Stjarnan í 4. sæti deildarinnar með 28 stig en Skallagrímur í 5. sæti með 26 stig. Liðin hafa þrívegis mæst í deildinni til þessa og hefur Skallagrímur 2-1 stöðu gegn Stjörnunni.
Úrslit deildarleikja liðanna til þessa:
Leikur 1: Stjarnan 71-77 Skallagrímur – Skallagrímur 6 +
Leikur 2: Skallagrímur 81-91 Stjarnan – Stjarnan 4 +
Leikur 3: Stjarnan 64-73 Skallagrímur – Skallagrímur 7 +
Vinni Skallagrímur í kvöld jafnar liðið Stjörnuna að stigum í 4.-5. sæti deildarinnar og er komið með innbyrðisviðureignina sín megin. Vinni Stjarnan í kvöld er úrslitakeppnin þeirra því forystan verður orðin 4 stig á Skallagrím og aðeins 2 stig í boði eftir kvöldið þar sem lokaumferðin er næsta laugardag. Ef Skallagrímur jafnar í kvöld með sigri þarf Stjarnan að vinna Val í lokaumferðinni og Skallagrímur að tapa gegn Haukum í lokaumferðinni til að Stjarnan fari áfram.
Leikir kvöldsins í Domino´s-deild kvenna:
Skallagrímur – Stjarnan
Keflavík – Haukar
Valur – Snæfell
Breiðablik – Njarðvík
Þá heldur úrslitakeppnin áfram í 1. deild kvenna þar sem Grindavík tekur á móti KR og Fjölnir fær Þór Akureyri í heimsókn. KR leiðir 1-0 gegn Grindavík og Fjölnir leiðir 2-0 gegn Þór Akureyri. Leikur Grindavíkur og KR hefst kl. 19:15 í Mustad-Höllinni í Grindavík en viðureign Fjölnis og Þórs hefst kl. 19.30 í Dalhúsum í Grafarvogi.
Mynd/ Ómar



