spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaPJ Alawoya til liðs við Val

PJ Alawoya til liðs við Val

Valsmenn hafa samið við nýjan erlendan leikmann en Íslandsvinurinn Philip B. Alawoya hefur samið við félagið. Þetta tilkynnti Valur rétt í þessu og mun hann leika með Völsurum gegn Grindavík í kvöld samkvæmt heimildum Körfunnar.

PJ var með 16 stig og 8,4 fráköst að meðaltali í þeim 14 leikjum sem hann lék fyrir Tindastól í fyrra. Í tilkynningu Vals segir:

“PJ Alawoya hefur skrifað undir samning við KKD Vals um að leika með liðinu út þetta tímabil í Dominosdeildinni. Hann er kominn til landsins og hefur fengið leikheimild og er því á skýrslu í sínum fyrsta leik með Val í kvöld þegar liðið sækir Grindavík heim. PJ er íslenskum körfuknattleiksmönnum að góðu kunnur. Hann varð Íslands- og bikarmeistari með KR árið 2017 og var með 15,8 stig, 8,3 fráköst, 1,7 stoðsendingar og 20,5 framlagspunkta í leik. Hann spilaði síðan með Tindastóli eftir áramótin á síðasta tímabili og var þá með 16 stig, 8,4 fráköst, 1,4 stoðsendingar og 20,2 framlagspunkta að meðaltali í leik.”

Ágúst Björgvinsson þjálfari Vals var ánægður með innkomu PJ inní liðið: „Við erum gríðarlega ánægð að fá PJ til okkar. Hann þekkir körfuboltann sem er spilaður hérna og það er mjög mikilvægt fyrir okkur. Hann gerði mjög vel hjá KR þar sem hann varð bæði Íslands- og bikarmeistari með liðinu. Hann var síðan mjög traustur með Tindastóli í vor.“

PJ var jafn kátur við komuna til Íslands og virðist klár í slaginn: „ Ísland, ég er kominn aftur! Ég er afar þakklátur Val og Gústa þjálfara fyrir að fá tækifæri til þess að gera það sem ég elska mest sem er að spila körfubolta. Valur er stórt félag og ég hlakka til tímabilsins!”

Á meðfylgjandi mynd má sjá PJ í leik með Tindastóli á síðasta tímabili. Ljósmyndari: Hjalti Árna.

Fréttir
- Auglýsing -