spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaMartin: Körfubolti snýst um jafnvægi

Martin: Körfubolti snýst um jafnvægi

Haukar unnu stóran sigur á ÍR fyrr í kvöld 101-81 í Dominos deild karla.

Israel Martin þjálfari Hauka var tekinn tali eftir öruggan sigur:

Nú töpuðuð þið síðustu tveimur leikjum gegn Þór Þ. og eitthvað virtist vera að og spilamennskan ekki góð. Hvað hefur breyst?

Ég tel að við spiluðum mjög vel í síðasta leik hér heima, mikið betur en í deildarleiknum. Við héldum þeim í 71 stigi og sigurinn í dag byggði að nokkru leyti á þeirri frammistöðu. Við náðum vissulega ekki að klára leikinn gegn Þór, við vorum 12-13 stigum yfir í hálfleik en við misstum alveg taktinn í þriðja leikhluta en við héldum áfram að spila skothelda vörn líkt og í kvöld sem var lykillinn að sigrinum. Liðið byggir á vörninni og sóknin kemur svo í kjölfarið. Ég er mjög ánægður fyrir hönd leikmanna því við sýndum að við viljum leggja okkur alla fram og gefa liðinu það sem þarf til að sigra og að við getum verið gott varnarlið.

Það var góður taktur í sókninni hjá ykkur, þið gerðuð vel undir körfunni og svo opnaðist allt fyrir utan og margir opnir þristar sem þið sköpuðuð í leiknum. Liðið er kannski farið að sýna núna almennilega styrk sinn?

Nú erum við komnir með Breka inn í liðið og ég held að við höfum núna gott jafnvægi á milli leikmanna sem spila undir körfunni og sem spila fyrir utan. Körfubolti snýst um jafnvægi, við getum ekki farið í hvert skipti inn í teig en ekki heldur skotið eintómum þristum. Mitt hlutverk sem þjálfari er að finna alltaf besta kostinn, finna opið skot, leið að körfunni eða nýta misvægi undir körfunni.

Sagði Israel Martin og óhætt að segja að það verður mjög spennandi að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér hjá liðinu.

Viðtal: Kári Viðarsson

Fréttir
- Auglýsing -