UÞórsarar mættu Þórsurum í Þorlákshöfn í kvöld. Liðin voru bæði stigalaus eftir fyrstu tvær umferðirnar. Heimamenn byrjuðu betur og leiddu sanngjarnt í lok fyrsta fjórðungs. Gestirnir komu sterkir til baka í öðrum fjórðungi og staðan aftur sanngjörn, 45-45 í lok hálfleiks.
Heimamenn hörkuðu sigurinn í gegn í seinni hálfleik en þurftu svo sannarlega að hafa fyrir stigunum tveimur. Gestirnir léku sinn besta leik í vetur og sýndu gífurlegar framfarir frá þrotinu gegn Fjölni. Það jákvæðasta fyrir heimamenn er að fá stigin tvö á töfluna en liðið þarf að spila betur ætli það sér einhverja hluti í vetur.
Gangur leiks:
Fyrri hálfleikur: Heimamenn byrjuðu betur og leiddu með níu stigum eftir fyrsta fjórðung. Hansel leiddi gestina áfram með góðum fjórðung og Emil Karel var frábær hjá heimamönnum.
Heimamenn byrjuðu annan fjórðung vel og komust í gott forskot. Hansel kom svo inn hjá gestunm og kom þeim hægt og rólega inn í leikinn með aðstoð frá Jamal Marcel sem kom sterkur inn af bekknum. Þórsarar jöfnuðu í 38-38 og komust yfir fyrir lok hálfleiks en staðan var jöfn 45-45 í hálfleik. Hansel með 24 stig og Emil Karel með 16.
Seinni hálfleikur: Akureyringar voru betri í þriðja fjórðungi og léku virkilega vel með fyrirmyndar varnarleik að vopni og fínum sóknarleik. Emil Karel keyrði sína menn í gang undir lok fjórðungsins en á svipuðum tímapunkti lét Halldór Garðar henda sér af velli með aðeins tvö stig skoruð. Gestirnir leiddu með þremur stigum að loknum þriðja fjórðungi.
Fjórði fjórðungur var algjör háspenna lífshætta og réðst á baráttu og heppni. Hansel var stíft dekkaður og örlítil þreyta virtist vera komin í hann. Heimamenn ‘grinduðu’ út sigurinn eins og Emil Karel sagði í viðtalinu eftir leik. Reynsla og vel framkvæmdar aðgerðir skiluðu sigrinum undir lokin.
Flautukarfa í lok fyrsta fjórðungs:
Gestirnir gátu minnkað muninn í þrjú stig undir lok fyrsta fjórðungs en þriggja stiga tilraun þeirra klikkaði. Lítið var eftir af klukkunni fyrir Emil Karel sem lét vaða og setti niður þriggja stiga körfu við eigin þriggja stiga línu.
Bless vinur:
Gestirnir fengu að minnsta kosti þrisvar sinnum í fyrri hálfleik að finna fyrir tröllavörnum heimamanna en sniðskot þeirra voru varin og þá með tilþrifum. Halldór Garðar og Marko vörðu svo sitthvort skotið í seinni hálfleiknum.
Vendipunkturinn:
Það er hægt að nefna þrjú atriði hér. Fyrst skal nefna innkomu Hansel inn á völlinn eftir hvíld að loknum fyrsta leikhluta. Gestirnir keyrðu á heimamenn og skoruðu m.a. tólf stig í röð og komust yfir eftir að hafa lent vel undir.
Annað atvikið er þegar Emil Karel er að keyra sína menn í gang eftir miðjan þriðja leikhluta. Halldór Garðar fær um það leyti reisupassann og Ragnar Bragason kemur með baráttu af bekknum og hefur áhrif.
Loka atriðið og það sem vóg mest er þegar Marko stelur boltanum af Hansel í lokasókn gestanna þegar heimamenn leiddu með einu stigi. Gestirnir fá svo á sig óíþróttamannslega villu og leikurinn svo gott sem úti.
Hetjan: Emil Karel Einarsson
Ótrúlegt að maður með 36 stig og 63% skotnýtingu sé ekki hetja leiksins en hetjan kemur úr sigurliðinu. Emil Karel fær nafnbótina en fyrirliðin sýndi fyrirmyndar baráttu þegar á reyndi og kom sínum mönnum í gang þegar hans lið var að spila illa í þriðja leikhluta. Emil skilaði 22 stigum og sex fráköstum í kvöld. Vincent skilaði 26 stigum og Marko fimmtán. Marko var auk þess með tólf fráköst, þrjú varin skot og tvo stolna bolta.
Tölfræðin lýgur ekki:
Það er erfitt að benda á þann tölfræðiþátt sem skilaði sigrinum í kvöld. Heimamenn sóttu meira inn í teiginn og komust oftar á línuna. Annars voru það lykilatriði sem gengu upp á ögurstundu hjá heimamönnum en ekki hjá gestunum. Þar má helst nefna ruðning sem Jamal fékk á sig í hraðaupphlaupi og uppkast sem Júlíus vildi fá í gegn en dæmd var villa. Marko átti þó að fá tvö vítaskot í restina en ekkert var dæmt svo að dómarnir hölluðu ekki á annað liðið.
Mikil bæting:
Eftir algjört þrot gegn Fjölni í síðustu umferð þá komu Akureyringar einbeittari og ákveðnari til leiks. Liðið sýndi mikla baráttu og varnarleikur liðsins var oft á tíðum til fyrirmyndar. Hansel leiddi liðið í kvöld og ljóst er að hann þarf að eiga svona leiki til að Akureyringar nái í sigur í vetur.
Endurtekið efni en nú komu stigin:
Heimamenn komust í góða forystu líkt og gegn Völsurum í síðustu umferð. Akureyringar komu sér í fína stöðu í þriðja fjórðungi en Þorlákshafnar Þórsarar náðu að klára leikinn og eru líklega guðslifandi fegnir að fá tvö stig gegn nýliðunum.
Umfjöllun, viðtöl / Sæbjörn Þór



