spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaSexfaldir meistarar sigruðu Grindavík

Sexfaldir meistarar sigruðu Grindavík

Meistararnir byrjuðu á góðum heimasigri gegn Grindvíkingum. KR liðið byrjaði vel og lenti aðeins einu sinni undir í leiknum. Stóru leikmenn KR reyndust gestunum erfiðir en Sigurður Þorvaldsson, Helgi Már Magnússon og Mike Craion gerðu nánast það sem þeir vildu í kringum körfuna. 3ja stiga körfur þeirra Ingva Guðmundssonar og Arnars Björnssonar voru helsta vopn gestanna en vopnin voru fleiri og beyttari hjá heimamönnum.

Gangur leiks:

Fyrri: Grindavík leiddi leikinn einu sinni í fyrri hálfleik í stöðunni 4-5 þegar Sigtryggur Arnar setti þrist. Hann og Ingvi voru þeir einu í liði Grindavíkur með lífsmarki sóknarlega. KR liðið var vel smurt og vel spilandi. Matthías hikstaði aðeins í 3ja stiga skotunum sínum en Siggi Þorvads, Helgi Magg, Mike og Þorvaldur Orri léku við hvern sinn fingur hjá KR. 46-34 í hálfleik.

Seinni: Hófst á þriggja stiga sýningu frá Ingva og Arnari, Grindavík ætlaði að nýta sér meðbyrinn sem stigin þrjú undir lok fyrri hálfleiks gaf liðinu. KR mjatlaði áfram þokkalega en gekk illa að slíta sig alveg frá gestunum.

Vendipunkturinn:

Jón Arnór setti gífurlega erfitt skot niður á lokamínútunum þegar skotklukkan var að renna út. Á þeim tímapunkti var munurinn á liðunum sjö stig sem var það minnsta í seinni hálfleik.

Hetjan:

Mike Craion var öflugur hjá KR og reyndist gestunum erfitt að eiga við hann undir körfunni. Craion skilaði niður 23 stigum og tók 15 fráköst. Hann var með endaði með 32 í heildarframlag.

Tölfræðin lýgur ekki:

KR varðist vel inn í teig og gekk Grindavík sérstaklega illa að hitta innan við 3ja stiga línuna. Til að setja þetta í samhengi var nýting Grindavíkur um miðjan 3. leikhluta: 42% 3ja nýting en 35% 2ja. KR liðið endaði með 65% nýtingu fyrir innan þriggja stiga línuna og Grindavík 42%.

Heimkoma kvöldsins:

KR-ingarnir Jakob Örn Sigurðarson, Matthías Orri Sigurðarson og Brynjar Þór Björnsson snéru allir til baka í lið KR í kvöld eftir mislanga fjarveru frá uppeldisfélaginu. Þá lék Mike Craion einnig með KR. Hann lék með Keflavík á síðustu leiktíð en hans síðustu leikir á Íslandi fyrir þá leiktíð komu í KR-treyjunni. Allir fjórir fengu standandi lófatak ásamt nýkríndum Íslandsmeisturum KR í knattspyrnu.

Ásar í ermi:

Bæði lið eiga nokkra góða leikmenn inni. Björn Kristjánsson og Kristófer Acox léku ekki með KR og Jamal Olasawere var ekki með Grindavík. Þá voru Dagur Kár og Ólafur Ólafsson töluvert frá sínu besta hjá gestunum.

Annað athyglisvert:

Jón Rúnar Halldórsson, fyrrum formaður knattspyrnudeildar FH, skrifaði undir styrktarsamning við KR fyrir hönd Unbroken.

Jamal Olasawere virtist mikið með hugann við símann en hann skoðaði reglulega hvort eitthvað nýtt væri þar að frétta.

Brynjar Þór Björnsson fór meiddur af velli eftir rúmar þrjár mínútur og kom ekki meira við sögu. Hann var kominn í borgaralegan klæðnað í seinni hálfleik. Craion lék síðustu fimm mínúturnar með vafning um vinstri hendina.

Gjöf undir lok fyrri hálfleiks:

Siggi Þorvalds braut á Arnari þegar minna en sekúnda var eftir af fyrri hálfleik og sendi Arnar á vítalínuna. Ingi. þjálfari KR, mótmælti og fékk tæknivillu. Arnar setti öll þrjú vítin niður.

Note: KR var 8 af 8 á vítalínunni í fyrri hálfleik. Áður en Arnar skoraði úr þremur vítaskotum á síðustu andartökum hálfleiksins var Grindavík 0 af 5 af línunni.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun / Sæbjörn Þór

Myndir / Davíð Eldur

Viðtöl / Sigurbjörn Daði

Fréttir
- Auglýsing -